spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Þristum rigndi í Smáranum, Skallarnir með góðan sigur

Umfjöllun: Þristum rigndi í Smáranum, Skallarnir með góðan sigur

Skallagrímur vann Breiðablik nokkuð sannfærandi í seinasta leik milli liðanna á tímabilinu í gærkvöldi, en Skallagrímur hitti úr metfjölda þrista á þessu tímabili í leiknum. Lítil vörn var spiluð í Smáranum framan af en Skallagrímur náðu forystunni eftir því sem leið á leikinn og lokaskorið varð 111-123, gestunum í vil.
 

Gangur leiksins

Leikurinn var mjög jafn framan af en Darrell Flake hjá Skallagrími fór fljótlega út af með tvær villur. Skallagrími gat illa dekkað Chris Woods og Sveinbjörn Jóhannesson sem kom inn á fyrir hann í miðjum leikhlutanum. Bæði lið voru að spila litla vörn og hitta vel úr skotunum sínum. Stigaskorið var því nokkuð hátt hjá báðum liðum eftir fyrsta leikhluta: 32-27.

Breiðablik hélt áfram að skora og sækja villur en Skallagrímur hélt í við þá með glæsilegri skotsýningu og undir lok fyrri hálfleiks náðu þeir naumri forystu, 58-59. Þessar hálfleiks tölur voru ekki langt frá lokaskori nokkurra leikja í deildinni sem enduðu í lægra stigaskori og því ljóst að annað hvort væru bæði lið að spila lélega vörn eða hitta mjög vel. Líkast til sitt lítið af hvoru.

Skallagríms breikkuðu bilið hægt og rólega í þriðja leikhluta þó að Blikar kæmu oft með lítil áhlaup til að minnka muninn enn á ný. Þeir grænu og gulu voru þó duglegir að verjast og keyra í bakið á heimamönnum sem hélt Breiðablik í þægilegri fjarlægð. Staðan eftir leikhlutann var því 82-90, Sköllunum í vil.

Í lokafjórðungnum voru Borgnesingar áfram beittir og eftir þriðja þristinn í röð á 90 sekúndum tóku Blikar leikhlé til að ráða ráðum sínum. Það stoðaði lítið því að Skallagrímur setti tvo þrista í röð fljótlega eftir leikhléið og munurinn orðin 19 stig með tæpar átta mínútur til leiksloka. Skallagrímsmenn hittu áfram vel en hættu aðeins að hitta undir lokin þegar Breiðablik tók lokaáhlaupið sitt. Heimamenn skoruðu 15 stig gegn tveimur stigum gestanna á síðustu 2 mínútum leiksins en það sást varla högg á vatni í stigaskorinu og leiknum lauk 111-123 fyrir Skallagrím.
 

Þáttaskil

Í lok þriðja fóru Skallarnir að hitta úr öllu og Breiðablik hættu að framkvæma sóknir sínar nægilega vel á sama tíma. Gestirnir hittu úr aragrúa af þriggja stiga skotum og hraðaupphlaups sniðskotum á meðan að Blikar áttu í basli með að skora gegn vörn Skallagríms. Skallagrímur hélt áfram að breikka bilið og komst mest í 25 stiga mun undir lok leiksins þó Blikar hafi aðeins náð að laga stöðuna á lokametrunum.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Skallagrímur hitti mjög vel út úr skotunum sínum í leiknum og sérstaklega frá þriggja stiga línunni. Fyrir leikinn var met liðsins í þriggja stiga skotum hitt 11 í leik. Gegn Breiðablik settu Skallarnir 20 þrista úr 33 tilraunum, 61% nýting þar á ferð. Skallagrímur var að hitta úr 8,2 þristum að meðaltali í leik fyrir þennan og liðið átti hreinlega skotsýningu í gærkvöldi. Það skipti engu máli að Blikar fengu 18 fleiri víti (30 talsins) en Skallagrímur, þeir nýttu hvort eð er aðeins 63% þeirra (19 hitt víti). Það sést líka á þeirri tölfræði að Skallagrímur var að fá svo mörg opin skot að þeir þurftu sjaldnast að keyra á körfuna og draga villur og vítaskot.
 

Kjarninn

Breiðablik átti slæmt kvöld varnarlega og virtust ekki geta haldið í við þristaregn Skallagríms. Þeir eru þá aftur dottnir niður í 4. sæti deildarinnar og þurfa að vinna Snæfell og vonast til að Vestri vinnur ekki Skallagrím í seinasta deildarleiknum sínum næsta föstudag (9. mars). Breiðablik gat með þessum leik ráðið hvort þeir yrðu í þriðja sætinu eða því fjórða en þarf núna að reiða sig á gengi Vestra í þessum stólaleik 3.-4. sætisins í 1. deild karla.
 

Tölfræði leiksins

Viðtöl eftir leikinn:

"Þetta er bara 'statement'. Þetta sýnir að við séum bestir í þessari deild."

"Við mótiverum okkur sjálfir og það tókst heldur betur í dag."

Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson
Viðtöl / Ólafur Þór Jónsson
Fréttir
- Auglýsing -