Lið ÍR og Hamars mættust í Hertz-hellinum í kvöld. Liðin standa í 5. og 6. sæti í 1. deild kvenna, en heimaliðið átti ennþá séns á úrslitakeppninni og því mjög mikilvægt að vinna báða leikina sem eftir voru. Gestirnir gerðu þeim grikk, voru lengi í gang en sigruðu að lokum 39-50. ÍR missir því af úrslitakeppninni og nú er ljóst hvaða fjögur lið mætast þar.
Gangur leiksins
Til að byrja með áttu bæði lið erfitt með að koma boltanum ofan í körfuna og það var lítið skorað. Fyrsta stig gestanna kom ekki fyrr en á þriðju mínútu. ÍR-ingar voru að spila flotta vörn og neyða Hamar í erfið skot. Bláklæddir gestirnir fóru að fá tilfinningu fyrir boltanum og þristur frá Gígju Marín Þorsteinsdóttur minnkaði muninn niður í eitt stig. Staðan eftir leikhlutann var jöfn, 7-7.
Kristín Rós Sigurðardóttir átti flotta innkomu af bekknum og opnaði annan leikhluta með körfu. Hamar var ekki lengi að svara með þristi og síðan hraðaupphlaupi. Eftir það áhlaup voru þær yfir í fyrsta skipti í leiknum. Gestirnir virtust skella í lás og ÍR átti erfitt með að komast að körfunni. Þegar liðin skildu inn í klefa var staðan 21-24, Hamar í vil.
Hamar opnar seinni hálfleik með með löngum þrist. Vörn ÍR-inga var ekki að halda fyrr en þær skiptu í 3-2 svæði um miðjan leikhlutann. Hamarsstúlkur höktu við það og áttu í vandræðum með að skora en voru þó ekki lengi að finna taktinn aftur því munurinn var orðinn 10 stig eftir aðeins eina mínútu af fjórða leikhluta. Á sama tíma gekk ÍR áfram illa að finna körfuna. Heimastúlkur gerðu lokaáhlaupið þegar rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka og þegar ein og hálf mínúta var eftir, var munurinn ekki nema 6 stig. ÍR braut svo á Vilborgu Óttarsdóttur í þriggja stiga skoti sem setti öll þrjú vítaskotin niður og von heimastúlkna um sigur í þessum síðasta heimaleik sínum var úti. Lokastaðan: 39-50 fyrir Hamri.
Kjarninn
ÍR-ingar ljúka þá keppni í 5. sæti þetta árið en síðasti deildarleikur þeirra er föstudaginn 9. mars, gegn Ármanni. Þess má geta að ÍR hefur ekki verið með kvennalið í 12 ár og árangur liðsins því mjög flottur. Mikil uppbygging er að eiga sér stað í Breiðholtinu og gengi liðsins þetta tímabilið verður gott veganesti fyrir næsta tímabil.
Það er því ljóst að KR mun mæta Grindavík og Fjölnir mun mæta Þór AK í undanúrslitum 1. deildar kvenna, sem verður 17.-29. mars. Úrslitarimman um sæti í efstu deild kvenna á næsta ári verður síðan 3.-16. apríl.