Stjarnan vann Breiðablik í kvöld í mikilvægum leik hjá þeim báðum, en bæði lið þurftu sigur í þessum leik til að koma sér í betri stöðu til að taka fjórða og síðasta sætið í úrslitakeppninni. Eftir jafnan leik þar sem liðin leiddu til skiptis þá áttu fáliðaðar Stjörnustelpurnar sterkari lokaleikhluta og unnu að lokum 57-63.
Gangur leiksins
Hvorugt lið var að hitta sérstaklega vel í byrjun og mikið af sóknarvillum hjá Stjörnunni í byrjun hamlaði þeim mikið í sókninni. Erlendur leikmaður Blika, Whitney Knight, var líka ekki að nýta sér hæðina gegn minna liði Stjörnunnar, en bæði Ragna Margrét Brynjarsdóttir og María Lind Sigurðardóttir voru ekki með í kvöld. Þær eru byrjunarliðsframherjar Stjörnunnar og með frákastahæstu leikmönnum liðsins þannig að Pétur Már, þjálfari liðsins, þurfti framlag frá öðrum reynsluminni leikmönnum af bekknum. Þær stóðust þá áskorun og Stjarnan leiddi með fjórum stigum eftir fyrsta leikhluta, 12-16.
Breiðabliksliðið var duglegt að neyða Stjörnuna í erfiðar sendingar og erfið skot í öðrum leikhluta og reyndu að keyra upp hraðann til að þreyta gestina. Stjarnan gat samt haldið strikinu sínu og leiddu með 8 stigum rétt fyrir lok fyrri hálfleiks. Auður Íris Ólafsdóttir, skotbakvörður Breiðabliks, náði hins vegar að minnka muninn í fimm stig á lokaflautunni með ævintýralegu skoti langt fyrir aftan miðju sem fór beinustu leið ofan í. Staðan í hálfleik: 30-35.
Bæði lið komu heldur köld út úr búningsklefanum sem sýndi sig í að staðan var 2-2 eftir fimm fyrstu mínútur seinni hálfleiks. Þá fóru Blikastelpurnar í gang og setti á næstu fjóru mínútunum 14 stig gegn tveimur stigum hjá Stjörnunni sem voru ekki nógu beittar á þessum kafla. Þær bláklæddu gátu aðeins lagað stöðuna með þremur vítum á lokamínútu þriðja og töpuðu því aðeins leikhlutanum með 9 stigum. Þær voru því fjórum stigum á eftir Blikum þegar 10 mínútur lifðu leiks, 46-42.
Stjarnan byrjaði fjórða leikhlutann miklu betur en þann þriðja og náði forystunni aftur eftir tvær mínútur. Danielle Rodriguez, sem hafði ekki hitt sérlega vel úr stökkskotunum sínum í leiknum en var samt dugleg að sækja sniðskotin sín, leiddi liðið sitt til sigurs undir lokin með góðum körfum og stórri stoðsendingu á lokametrunum. Gestirnir unnu að lokum með sex stigum, 57-63.
Þáttaskil
Þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum í stöðunni 55-60 töpuðu Stjörnustelpur boltanum og Breiðablik gat snúið leiknum sér í vil. Sú sókn endaði hins vegar með því að skot Whitney fór ekki niður og Danielle gat keyrt upp völlinn og smellt boltanum í hendurnar á Bryndísi Hönnu. Hún setti þrist sem drap endurkomu Blikanna í fæðingu. Heimastúlkur enduðu á að skora aðeins 2 stig restina af leiknum og því fór sem fór.
Tölfræðin lýgur ekki
Stjarnan var betri í flestum tölfræðiþáttum en Breiðablik í leiknum fyrir utan fráköstin. Breiðablik tók 20 sóknarfráköst gegn aðeins 6 sóknarfráköstum Stjörnunnar og skoruðu 17 stig úr sóknarfráköstunum sínum á meðan að Stjarnan gat aðeins skilað fjórum stigum úr sóknarfráköstunum sínum. Blikar hefðu líkast til unnið út af því ef þær hefðu nýtt skotin sín betur í leiknum, en heimastelpur nýttu aðeins 26,7% skota sinna á meðan að gestirnir hittu úr 33,8% af skotunum sínum. Það skemmdi ekki heldur fyrir að Stjörnustelpur settu 11 af 13 vítaskotum í leiknum á meðan að Blikastelpur fengu aðeins sjö víti og nýttu aðeins fjögur þeirra.
Mikilvægir leikmenn
Danielle Rodriguez hefur oft átt góða leiki fyrir Stjörnuna og í kvöld var talsverð þörf á henni fyrst að það vantaði tvo framherja í liðið (Rögnu Margréti og Maríu Lind). Hún byrjaði leikinn pínu flöt en steig upp eftir því sem leið á leikinn. Dani endaði á að skora 32 stig, taka 20 fráköst, hún gaf 6 stoðsendingar, stal þremur boltum og varði þrjú skot. Hún lauk leik með 45 í framlag og til samanburðar má nefna að allt lið Breiðabliks var aðeins með 57 í framlag. Jenný Harðardóttir átti líka ágætan leik fyrir Stjörnuna, en hún stóð sína plikt í vörninni, skilaði nokkrum vel völdum körfum og lauk leik með 14 stig, 11 fráköst og þrjá stolna bolta.
Kjarninn
Breiðablik átti slæmt kvöld eftir mjög góðan leik seinast gegn Valsstúlkum, einmitt hér í Smáranum. Blikar virðast mæta betur í leiki gegn erfiðum liðum en mæta verr í leiki sem að þær eiga að geta unnið. Stjarnan slapp hreinlega mjög vel í kvöld, en minni spámenn liðsins héldu í við Breiðablik og skiluðu góðri baráttu þó að tölfræðin beri þess ekki endilega merki.
Þá er Stjarnan komin aftur í 4. sætið og Breiðablik verður að herða sig ef þau vilja komast í úrslitakeppnina. Þær verða að enda með fleiri stig til að komast fram úr Stjörnunni þar sem að þær hafa núna tapað innbyrðis baráttunni gegn þeim (1-3 í sigrum og töpum).
Tölfræði leiksins
Myndasafn: Bjarni Antonsson
Viðtöl eftir leikinn: