Valur mætti Haukum í kvöld í 25. umferð úrvalsdeildar kvenna. Haukar gátu tryggt sér deildarmeistaratitilinn með sigri í leiknum á meðan að Valsstúlkur gátu enn komist í 1. sætið með því að sigra í kvöld. Eftir æsispennandi leik þar sem munurinn milli liðanna var sjaldan meira en ca. 5 stig unnu Haukar leikinn að lokum með fjórum stigum, 67-71.
Gangur leiksins
Haukar byrjuðu betur með góðri vörn og þolinmóðum sóknum en Valur var aldrei langt undan. Haukarnir voru að hitta mjög vel fyrir utan (5/8 í þristum) í fyrsta leikhlutanum en gátu ekki hrist Val af sér, enda voru heimastúlkurnar duglegar að sækja inn í teig og klára sniðskotin sín. Gestirnir rauðklæddu voru að láta boltann ganga miklu betur en Valsarar og voru með 10 stoðsendingar í fyrsta leikhluta gegn 5 hjá heimaliðinu. Staðan eftir fyrstu 10 mínúturnar; 23-27.
Vörn Valsstúlkna átti áfram erfitt með að stöðva Hauka og fjölmargar sendingar þeirra í sóknum sínum. Bæði lið fóru hins vegar að hitta verr og eftir 5 mínútur af öðrum leikhluta höfðu liðin aðeins skorað 3 og 5 stig. Valur var með helling af sóknarfráköstum sem þau voru ekki að nýta sem skildi og Haukar fóru á einum kafla að senda of margar sendingar sem leiddi oft til tapaðara bolta. Undir lok fyrri hálfleiks setti Valur upp vörn með mikið af tvídekkingum sem varð til þess að þær gátu minnkað bilið og farið inn í hálfleikshléið í stöðunni 37-39.
Bæði lið héldu áfram að spila ágæta vörn og hitta illa úr skotunum sínum í þriðja leikhluta, sem skilaði sér í lágu skori líkt og í öðrum leikhlutanum. Sigrún Björg Ólafsdóttir, sem hefur verið í byrjunarliði Hauka í nokkrum leikjum og spilaði flotta vörn á bakverði Vals, setti tvo þrista í leikhlutanum til að bægja Val frá þegar þær settu nokkrar körfur og ógnuðu forskoti Hauka. Stigaskorið var 12-16 eftir þriðja og staðan því 49-55 þegar lokafjórðungurinn hófst.
Mikil spenna var í fjórða leikhluta og Valur barðist við að ná að komast fram úr Haukum. Með harðfylgi náði Valur forystu í fyrsta sinn síðan í fyrsta leikhluta með góðri körfu frá Aaliyuh Whiteside eftir góðan kafla hjá heimastelpunum. Þá tók Þóra Kristín Jónsdóttir sig til og setti þrista í næstu tveim sóknum Hauka til að komast aftur fram úr og gera þetta erfiðara fyrir Val. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir eftir það gátu Valsstúlkur ekki náð Haukum og lokastaðan varð 67-71, gestunum í vil.
Þáttaskil
Þegar Valsstúlkur náðu loks að jafna og komast fram úr Haukum með tveimur stigum í fjórða leikhluta hélt undirritaður að þær gætu snúið leiknum og deildarmeistaratitilinn yrði áfram ótryggður. Þóra Kristín, sem hefur átt gott tímabil fyrir Hauka, steig þá upp og setti þrist til að koma gestunum aftur í forystuna og í næstu sókn setti hún síðan annan þrist til að breikka bilið ennþá meira. Þar með sneri hún leiknum við aftur og Haukar enduðu á að vinna leikinn.
Tölfræðin lýgur ekki
Þó að Valur hafi hitt betur úr tveggja stiga skotunum sínum (41% vs. 35% hjá Haukum) þá var þriggja stiga nýtingin afleit hjá heimamönnum í kvöld. Eftir að þær hittu úr fyrsta þristinum sínum í leiknum tóku þær 17 aðra þrista án þess að nokkur þeirra færi niður, 5% skotnýting fyrir utan þriggja stiga línuna á heildina. Haukar hittu aftur á móti 9/29 í þriggja stiga skotum (31%) og það dugði til sigurs. Haukar voru líka miklu duglegari að láta boltann ganga í sókninni, enda gáfu þær 24 stoðsendingar í leiknum gegn 13 stoðsendingum hjá Val.
Hetjan
Helena Sverrisdóttir var aftur mjög mikilvæg fyrir Hauka, en hún náði þrefaldri tvennu með 16 stig, 20 fráköst og 11 stoðsendingar. Hún lauk leik með 33 framlagsstig og +8 stig í plús/mínús-tölfræði. Whitney Frazier var líka mjög góð með 16 stig, 8 fráköst og 5 stoðsendingar. Hetjutitilinn í leiknum hlýtur samt hún Þóra Kristín, sem setti stór skot þegar þörf var á og lauk leik með 14 stig, þ.a. 4/7 í þriggja stiga skotum. Í liði Vals var Aaliyah Whiteside framlagshæst (37 framlagsstig) með 29 stig og 16 fráköst.
Kjarninn
Þá eru Haukar búnir að tryggja sér deildarmeistaratitilinn og heimavallarréttinn gegnum alla úrslitakeppnina. Valur þarf aftur á móti að hrista af sér slenið og vinna nokkra leiki í viðbót til að tryggja að Keflavík komist ekki upp fyrir þær í 2. sætið.
Tölfræði leiksins
Myndasafn: Bára Dröfn Kristinsdóttir
Viðtöl eftir leikinn: