Fyrsti leikurinn í undanúrslitarimmu 1. deildar karla fór fram í kvöld á milli Breiðabliks (3. sætisins) og Vestra (4. sætisins) í Smáranum. Ljóst var að Vestri yrði án framlagshæsta leikmannsins síns, Nemanja Knezevic, og að róðurinn yrði erfiður fyrir gestina. Þjálfaralausir Breiðabliksmenn spiluðu hörku vörn allan leikinn og settu tóninn fyrir þessa rimmu, en þeir unnu að lokum 93-64.
Gangur leiksins
Breiðablik byrjaði leikinn betur og skoraði nokkrar góðar körfur áður en Vestri fór loks í gang. Ísfirðingar höfðu keyrt suður samdægurs og virtust aðeins eftir sig í byrjun, en nokkrir leikmenn voru ekki komnir upp í fullan hraða fyrr en þó nokkrar mínútur voru liðnar af leiknum. Nebojsa Knezevic og Ingimar Aron Baldursson héldu Vestra þó í seilingarfjarlægð með nokkrum vel völdum þristum svo staðan var aðeins 22-15 í lok fyrsta leikhluta.
Vestramenn voru ennþá dálítið flatir í öðrum leikhlutanum og Blikar gengu á lagið með fimm fljótum stigum áður en Vestri gat svarað með eigin körfu. Breiðablik var að hitta vel úr þristum í leikhlutanum og voru duglegir allan leikinn að spila þétta vörn á stigahæsta leikmann Vestra, Nebojsa. Eftir fimm mínútur var staðan orðin 37-22 og Yngvi Páll, þjálfari Vestra, sá sig tilneyddan að biðja um leikhlé. Það stoðaði lítið því Blikar héldu áfram að rúlla og skoruðu fimm stig í röð beint úr leikhléinu. Staðan í hálfleik var 53-30 fyrir Breiðablik og útlitið ekki gott fyrir Vestra.
Vestri mætti betur inn í seinni hálfleikinn en þann fyrri og gestirnir náðu 4-12 áhlaupi á fyrstu fjórum mínútum leikhlutans með góðum sóknum. Breiðablik hélt hins vegar áfram að spila vörn og Vestri hreinlega hafði ekki nógu marga leikmenn til að halda í við hátt tempó Blikanna. Eftir áhlaup Vestra svöruðu Blikar með eigin 11-4 áhlaupi og munurinn var því nokkuð svipaður og hann var í hálfleik, 68-46 fyrir Breiðablik.
Í fjórða leikhluta breyttist lítið og Breiðablik hélt áfram að tvídekka Nebojsa sem átti erfitt með að senda út úr þeirri tvídekkingu þegar engir liðsmenn hans voru að bjóða sig. Ingimar Aron var raunar sá eini sem virtist með lífsmarki hjá Vestra, en hann var framlagshæstur og stigahæstur hjá Vestra í leiknum. Nebojsa átti mjög dapran leik enda virtust Blikar gera út á að takmarka hann. Lokastaðan varð 93-64, Breiðablik í vil.
Þáttaskil
Það urðu aldrei þáttaskil í leiknum, nema þegar leikmenn stigu inn á völlinn, enda var leikurinn einhliða frá fyrstu mínútu. Varnarleikur Breiðabliks var mjög góður og þeir uppskáru eftir því, enda verður leikur þar sem andstæðingarnir skora aðeins 64 stig að kallast góður.
Tölfræðin lýgur ekki
Vörn Breiðabliks neyddi Vestra í 25 tapaða bolta sem leiddi til margra hraðaupphlaupa þar sem Blikar hreinlega skildu gestina eftir (20 hraðaupphlaupsstig gegn aðeins tveimur slíkum hjá Vestra). Vörnin varð líka til þess að Vestri fékk 15 færri skot utan af velli sem að þeir nýttu verr (31% skotnýting hjá Vestra). Dýpt Blika kom líka fram í tölfræðinni, en bekkurinn hjá þeim skoraði 22 stig gegn sex stigum bekkjarins hjá Vestra.
Hetjan
Hetjan í kvöld var vörnin, en sá sem dróg vagninn sóknarlega hjá Blikum var Chris Woods, sem átti frábæran leik á aðeins 24 mínútum. Hann lauk leik með 27 stig, 10 fráköst, 3 stoðsendingar og 3 stolnir boltar. Hann var einnig framlagshæstur allra í leiknum með 29 framlagspunkta. Ingimar Aron var atkvæðamestur hjá Vestra með 23 stig, 5 stoðsendingar og 6 af 10 í þristum.
Kjarninn
Þá eru Blikarnir í bílstjórasætinu eftir fyrsta leikinn í undanúrslitunum og virðast vera mættir í þessa rimmu. Vestri er aftur á móti í talsverðum vandræðum ef þeir geta ekki stigið upp sóknarlega og leyst vörn Breiðabliks. Þá vantar auðvitað miðherjann sinn, Nemanja Knezevic, en það er ekki útlit fyrir að hann muni geta bjargað þeim í þessari rimmu, enda ekki orðinn almennilega heill eftir meiðsli sem hann hlaut í leik gegn Gnúpverjum í deildarkeppninni. Þeir fá þó allavega heimaleik þar sem þeir mæta vonandi hvíldir og talsvert beittari en í þessum leik.
Tölfræði leiksins
Myndasafn: Bjarni Antonsson
Viðtöl eftir leikinn: