Leiknismenn tóku á móti Reyni Sandgerði í Kennaraháskólanum seinast liðinn fimmtudag í leik sem var frestað fyrir sex vikum síðan vegna yfirvofandi óveðurs (sem aldrei varð af). Heimaliðið mætti vel stemmt og eftir upp og niður byrjun settu þeir í fluggírinn í seinni hálfleik og tryggðu góðan sigur.
Gangur leiksins
Leiknir byrjaði aðeins á hælunum í upphafi og hleyptu gestunum í nokkur auðveld færi áður en þeir fóru að leita inn að körfunni. Á örfáum mínútum var Reynisliðið komið í villuvandræði og þurfti að skipta inn á eftir 4-5 mínútur. Um svipað leyti lifnaði heldur betur yfir Leikni og liðið tók 12-2 áhlaup til að loka fyrsta leikhlutanum. Staðan eftir tíu mínútur; 23-12.
Áhlaupið hjá Leikni hélt aðeins áfram inn í annan leikhlutann, en þeir skoruðu 5-0 á fyrstu 4 mínútum fjórðungsins. Þá virtist heimaliðið fipast á sama tíma og Reynir tók sitt eigið 3-12 áhlaup til að laga stöðuna aðeins. Breiðhyltingarnir (sem spila reyndar í Kennaraháskólanum) tóku þá eilítið við sér og gátu svarað aðeins fyrir sig seinustu 1-2 mínúturnar í fyrri hálfleik svo að staðan var 42-32 þegar leikurinn var hálfnaður.
Hvað sem að gékk upp hjá Reyni í öðrum leikhlutanum var ekki að virka jafn vel í þriðja og Leiknir var ekki lengi að ganga á lagið og náði með góðu spili að gera eiginlega út um leikinn í næst seinasta fjórðungnum. Staðan eftir leikhlutann var 71-47. Liðin voru að spreyta sig á öllum leikmönnum í fjórða og svo fór að lokum að Leiknir vann með 27 stigum, 88-61.
Þáttaskil
Leikurinn var eiginlega úti eftir þriðja leikhlutann þar sem að Leiknismenn tóku sig til og skoruðu 14 stig í röð án þess að Reynir gat svarað með nokkru einasta stigi. Áhlaupið leiddu þeir Helgi Ingason og Kristinn Loftur Einarsson, en þeir skoruðu báðir sex stig á þessum 3 mínútum. Þeir settu 8 af 8 vítum á þessum kafla og Ingvi Guðmundsson bætti í sarpinn með því að hitta úr tveimur vítum af tveimur líka. Eftir þetta var róðurinn orðinn heldur strembinn fyrir Reyni Sandgerði og svo fór sem fór.
Tölfræðin lýgur ekki
Vítanýting Leiknis í leiknum var nokkuð betri en hjá Reyni ásamt því að heimamenn voru betri að sækja skotvillurnar. Leiknir fékk 31 vítaskot í leiknum og nýtt 24 þeirra (78% nýting) á meðan að Reynir fékk aðeins 23 víti á heildina og gat bara nýtt 12 þeirra (52% nýting). Villufjöldinn var þó nokkuð álíkur, en Leiknir fékk 22 villur dæmdar á sig á móti 26 villum hjá Reyni Sandgerði.
Hetjan
Það munaði minnstu að allir leikmenn Leiknis skoruðu í leiknum, en atkvæðamestur var Einar Bjarni Einarsson. Einar Bjarni skoraði 21 stig, en til gamans má geta að hann fékk sína fimmtu villu hálfa leið inn í þriðja leikhluta svo að hann spilaði eflaust styttra en hann hefði getað. Annað skemmtilegt: hann fékk seinustu 4 villurnar sínar á þriggja mínútna kafla í þriðja. Stigahæstur hjá Reyni Sandgerði var Eðvald Ómarsson með 14 stig.
Kjarninn
Þá er komið á hreint hverjir fara í úrslitakeppni 2. deildar karla, en Sindri, KV, Leiknir og Reynir Sandgerði munu keppast við þegar restin af deildarkeppninni lýkur. Ekki er enn komið á hreint hvar eða hvenær leikirnir verða háðir, en ljóst er að viðureignirnar í undanúrslitunum eru Sindri-Reynir S. og KV-Leiknir.
Tölfræði:
Leiknir R.:
Einar Bjarni Einarsson 21 stig, Helgi Ingason 14 stig, Kristinn Loftur Einarsson 13 stig, Gunnar Arnar Gunnarsson 11 stig, Ingvi Guðmundsson 10 stig, Konráð Atli Helgason 6 stig, Sigurður Jakobsson 5 stig, Eiríkur Örn Guðmundsson 4 stig, Sigurður Orri Kristjánsson 2 stig, Helgi Hrafn Ólafsson 2 stig, Hafliði Sævarsson 0 stig.
Reynir Sandgerði:
Eðvald Ómarsson 14 stig, Garðar Gíslason 11 stig, Ólafur G. Jónsson 10 stig, Jóhann Eggertsson 8 stig, Viðar H. Kjartansson 7 stig, Sindri Meyvantsson 3 stig, Kristján Smárason 2 stig, Birgir Snorrason 2 stig, Kristján Einarsson 2 stig, Arnar Þór 2 stig, Sigurður Guðmundsson 0 stig, Gestur Leó 0 stig.
Eðvald Ómarsson 14 stig, Garðar Gíslason 11 stig, Ólafur G. Jónsson 10 stig, Jóhann Eggertsson 8 stig, Viðar H. Kjartansson 7 stig, Sindri Meyvantsson 3 stig, Kristján Smárason 2 stig, Birgir Snorrason 2 stig, Kristján Einarsson 2 stig, Arnar Þór 2 stig, Sigurður Guðmundsson 0 stig, Gestur Leó 0 stig.