spot_img
HomeFréttirKústurinn á loft í Vesturbænum

Kústurinn á loft í Vesturbænum

 

Njarðvíkingar komu í DHL höllina í kvöld 2-0 undir og með bakið upp við vegg. Staðan einföld fyrir gestaliðið, sigur eða sumarfrí. KR ingar hins vegar höfðu engan áhuga á því að lengja tímabil Njarðvíkinga og unnu 10 stiga sigur eftir hörkuleik sem var jafnari en lokatölurnar gefa til kynna. Þar með eru Njarðvíkingar fallnir úr leik en KR komið í undanúrslit íslandsmótsins.

 

Pavel Ermolinskij var atkvæðamestur KR-inga í leiknum með 24 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar en hjá gestunum var Ragnar Nathanaelsson með 10 stig og 18 fráköst, þar af 10 í sókn.

 

 

Gangur leiksins

KR-ingar byrjuðu betur og komust í 5-0 eftir að Darri Hilmarsson setti fyrstu 2 skotin sín niður og svo héldu Vesturbæingar um það bil 5-8 stiga forystu allan leikhlutann. Njarðvíkingum gekk bölvanlega að setja niður opin skot en vörn KR var líka sterk með Kristófer Acox fremstan í flokki, hann varði 3 skot í leikhlutanum. Annar leikhluti var svo stórfurðulegur. Eftir að Njarðvík minnkaði muninn í 19-16 þegar 8:30 voru eftir af leikhlutanum fór lok á körfuna og staðan hélst 19-16 í um það bil 4 mínútur. Þá tóku skyttur liðanna við sér og KR fór inn í hálfleikinn með 8 stiga forystu, 36-28.

 

Síðari hálfleikurinn var svo jafn og spennandi, KR yfirleitt með yfirhöndina en tókst þó ekki að hrista Suðurnesjamennina alveg af sér, staðan eftir þrjá leikhluta var 57-56. Það var svo leiðinlegt að sjá að Jón Arnór Stefánsson þurfti að fara meiddur útaf eftir að hafa snúið á sér ökklann.  Í lokaleikhlutanum sýndu KR-ingar styrk sinn, leystu svæðisvörn Njarðvíkinga vel og voru yfirvegaðir varnarmegin á vellinum. Þeir voru mikið að keyra eftir endalínunni og fundu menn djúpt í teignum sem reyndist Njarðvíkingum erfitt að stoppa. KR voru svo sterkari á lokakaflanum og sópuðu Njarðvík í sumarfrí, lokatölur 81-71.

 

 

Tölfræðin lýgur ekki

KR voru mikið sterkari en Njarðvíkingar fyrir utan þriggja stiga línuna og settu 10 þriggja stiga körfur í 24 tilraunum sem gerir 41% nýtingu, en Njarðvíkingar skoruðu einungis úr 7 þrista úr 31 tilraun sinni. Þá gáfu KR 23 stoðsendingar gegn fátæklegum 14 hjá Njarðvíkingum. Boltinn einfaldlega flæddi miklu betur hjá Vesturbæingum í kvöld.

 

 

Troðslan

Strax í upphafi leiks þá gaf Kristófer Acox svoleiðis tóninn að hann heyrðist sennilega að minnsta kosti út í Innri Njarðvík. Eftir sóknarfrákasts KR inga fékk Kristófer boltann og svoleiðis kristnaði vesalings Ragnar Nathanaelsson, hinn 217 sentimetra háa miðherja gestanna. Ein svakalegasta troðsla sem undirritaður hefur séð í íslenskum körfubolta og er af nógu að taka.

 

 

Maður leiksins

Pavel Ermolinski var einfaldlega frábær í kvöld, hann stýrði flæði sóknar KR vel, spilaði góða vörn og lauk leiknum með mjög svo huggulega línu upp á 24 stig, 11 fráköst, 8 stoðsendingar og hitti úr öllum 5 þriggja stiga skotum sínum. Skotin komu öll á mikilvægum tímum í leiknum þegar að Njarðvíkingar voru að saxa á forskotið. Algerlega stórkostlegur leikur hjá Pavel sem er heldur betur að minna á sig í úrslitakeppninini eftir þögult tímabil.

Þá er vert að minnast á framlag Kristófers Acox sem var mjög góður í kvöld, hann skilaði 15 stigum, 13 fráköstum og 3 vörðum skotum. Kristófer setti aukinheldur 5 af 6 skotum sínum í leiknum.

 

Tölfræði Leiksins

 

Umfjöllun Sigurður Orri Kristjánsson
Viðtöl Davíð Eldur
Myndir Bára Dröfn

 

Viðtöl:

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -