spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Njarðvíkingar sóttu sinn fyrsta deildarsigur í Smárann

Umfjöllun: Njarðvíkingar sóttu sinn fyrsta deildarsigur í Smárann

Njarðvík náði í gærkvöldi að forðast þann vafasama stimpil að fara án sigurs gegnum heilt tímabil í úrvalsdeild kvenna með sigri á Breiðablik í Smáranum. Eftir jafnan fyrri hálfleik settu Njarðvíkingar í fluggírinn í seinni hálfleik og unnu örugglega 59-77.
 

Gangur leiksins

Fyrir leikinn var ljóst að Isabella Ósk Sigurðardóttir, framherji Breiðabliks, yrði ekki með vegna höfuðmeiðsla sem hún fékk í útileik gegn Haukum fyrir skemmstu. Hildur Sigurðardóttir, þjálfari Blika, hafði þ.a.l. skellt sér í búning og var á leikskýrslu bæði sem leikmaður og þjálfari í leiknum. Hún hafði þá ekki keppt síðan hún spilaði með Snæfell árið 2015 og undirritaður vissi ekki hvort að hún væri að fara koma inn á fljótlega eftir að leikurinn byrjaði eða bara í ruslmínútum. Svo fór að eftir 5 mínútur og í stöðunni 7-12 fyrir Njarðvík kom Hildur inn á. Það hafði ekki tilætluð áhrif og staðan breyttist lítið áður en hún fór aftur á bekkinn. Staðan eftir fyrsta leikhluta; 17-21 fyrir Njarðvík.

Í öðrum leikhlutanum náðu Blikastelpur að keyra sig betur í gang og með bættri sókn gátu þær komist fram úr Njarðvík og héldu þeim frá sér allan fjórðunginn. Breiðablik var með forystuna, 42-37, þegar að liðin héldu inn í búningsklefana í hálfleik og útlit fyrir að þær væru að fara breikka bilið í seinni hálfleik. Svo fór hins vegar ekki heldur girtu Njarðvíkustelpur sig í brók og voru eftir nokkrar mínútur búnar að jafna og skiptust síðan á körfum við Breiðablik þar til tvær mínútur voru eftir af þriðja. Þá settu Björk Gunnarsdóttir og Erna Freydís sitt hvoran þristinn og Njarðvík leiddu 51-56 þegar aðeins lokafjórðungurinn var eftir. Blikarnir komu flatir inn í seinasta leikhlutann og skoruðu ekkert fyrstu 5 mínútur leiksins á meðan að Njarðvík hélt áfram að skora. Þegar Breiðablik skoraði loks tveggja stiga körfu til að koma sér upp í 53 stig voru Njarðvíkingar búnar að skora 67 stig og lítið sem að Blikar gátu gert eftir það. Á seinustu 5 mínútum leiksins skoruðu þær 6 stig gegn 10 stigum Njarðvíkur og lokastaðan varð því eins og áður sagði 59-77.
 

Þáttaskil

Þáttaskilin virðast hafa verið hálfleikurinn þar sem að Blikastelpurnar voru yfir í hálfleik. Úr stöðunni 42-37 skoruðu heimastúlkur aðeins 17 stig á seinustu 20 mínútunum á meðan að Njarðvík setti samtals 40 stig í seinni hálfleik. Þá kom m.a. 5 mínútna kafli hjá Blikum þar sem að þær skoruðu ekki eitt einasta stig.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Njarðvíkingar voru betri í nógu mörgum tölfræðiþáttum í kvöld til að vinna örugglega. Þær hittu úr fleiri skotum í færri tilraunum (24/63 gegn 20/66 hjá Breiðablik) og voru duglegari að hirða fráköstin (52 fráköst gegn 36 hjá Breiðablik). Þó þær hafi tapað aðeins fleiri boltum (17 gegn 12 hjá Breiðablik) þá voru þær að sækja inn í vörnina hjá Breiðablik sem skilaði sér í fleiri vítaskotum sem að þær nýttu vel (22/26 gegn aðeins 13/17 hjá Breiðablik). Þar vannst leikurinn.
 

Hetjan

Shalonda Winton var hetja kvöldsins með 31 stig, 17 fráköst, 6 stoðsendingar og 13 fiskaðar villur. Hún tók 16 vítaskot í leiknum og nýtti 14 þeirra (88%) og lauk leik með 35 framlagsstig. Hjá Breiðablik var Whitney Knight skárst með 24 stig, 5 fráköst, 3 stoðsendingar og 2 varin skot (21 framlagsstig á heildina).
 

Kjarninn

Þar með hefur Njarðvík loks unnið deildarleik tímabilið 2017-2018 og ekki seinna vænna. Njarðvíkurstelpur áttu ekki nema einn leik eftir á heimavelli gegn Keflavík og hafa því forðast þann vafasama heiður að fara gegnum deildarkeppnina án sigurs. Þrátt fyrir þetta eru þær fallnar og Breiðablik þarf að eiga við sig sjálft að hafa tapað á heimavelli á móti versta liði deildarinnar.
 

Tölfræði leiksins

Myndasafn: Bjarni Antonsson

Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bjarni Antonsson

Fréttir
- Auglýsing -