spot_img
HomeFréttirDanero skaut Stjörnunni í sumarfrí!

Danero skaut Stjörnunni í sumarfrí!

Það var rafmagnað andrúmsloft í Garðabænum í kvöld þegar að Breiðhyltingar mættu í heimsókn, tímabilið að veð1 og staðan frekar einföld. ÍR sigur og Stjarnan í sumarfrí en Stjörnusigur myndi senda okkur í oddaleik í Breiðholtinu.

Liðin mættu bæði fáliðuð til leiks, Ryan Taylor fékk 3gja leikja bann fyrir fólskulegt brot á Hlyni Bæringssyni í síðasta leik en Hlynur sjálfur var ekki með vegna heilahristings.

Eftir jafnan leik sigruðu Breiðhyltingar með litlum mun, 69 – 71. Það var Danero Thomas sem var hetja gestanna en hann setti erfitt tveggja stiga skot þegar að einungis var 1 sekúnda eftir af leiknum. Hjá Stjörnumönnum var Collin Pryor stigahæstur með 22 stig en Danero Thomas var atkvæðamestur ÍR með 24 stig og 21 frákast, sannkölluð tröllatvenna.

 

Gangur leiksins

 

Stjörnumenn byrjuðu leikinn betur og komust í 6-0 og svo 11-6 áður en ÍR-ingar rönkuðu almennilega við sér, ÍR töpuðu 5 boltum á fyrstu mínútunum og greinilegur skjálfti í mönnum, en það átti eftir að breytast. Fyrsti leikhluti var samt eign Stjörnumanna sem fengu flest þau skot sem þeir ætluðu sér, staðan eftir einn hluta 26-19 fyrir heimamenn, munurinn hefði getað verið meiri en Sveinbjörn Claessen skoraði tvisvar sinnum eftir sóknarfráköst í lokin.

 

ÍR komu sér strax inn í leikinn í öðrum leikhluta og var Hákon Örn öflugur á þessum kafla, var duglegur að keyra inn í miðjuna og finna félaga sína og ekki veitti af þar sem besti leikmaður ÍR inga, Matthías Sigurðarsson var að eiga slæman leik. Vörnin var í aðalhlutverki í leikhlutanum og liðin ekki að skora mikið, það var svo Danero Thomas sem setti síðustu stig hálfleiksins. 36 – 38 Breiðhyltingum í vil.

 

Þriðji leikhluti var sami barningurinn og gekk liðunum ekkert sérstaklega vel að finna körfuna og voru þau mikið að skiptast á forystunni, ÍR voru duglegir að berja á Stjörnumönnum í fráköstunum, sem svöruðu í sömu mynt og leikurinn hægðist vel niður, staðan 53-52 fyrir Stjörnuna.

 

Fjórði leikhlutinn var svo jafn og spennandi, engin sóknarsýning en svæðisvörn ÍR reyndist Stjörnumönnum erfið og lentu þeir 4 stigum undir eftir að dæmt var óíþróttamannsleg villa á Tómas Þórð fyrir lélegt treyjutog. Stjörnumenn náðu þó að bíta í skjaldarrendur og komast yfir áður en Hákon Örn af öllum mönnum tók sóknarfrákast og jafnaði leikinn í 69-69. Það var svo Danero Thomas sem tryggði ÍR góðann sigur 69-71. Stjörnumenn áttu villu til að gefa og var undirritaður frekar hissa á því að hún var ekki notuð.

 

 

Tölfræðin lýgur ekki

ÍR-ingar dómineruðu frákastabráttuna í kvöld í fjarveru Hlyns Bæringssonar sem hafði fyrir þennan leik verið eins og kóngur í ríki sínu í teignum. Lokatölur í fráköstunum voru 59-39 ÍR í vil og í raun ótrúlegt að leikurinn hafi haldist svona jafn. ÍR tóku þar af 20 sóknarfráköst gegn 5 hjá Garðbæingum. Fjarvera Hlyns greinileg og mjög sorglegt að ljótt brot leikmanns ÍR hafi klárað tímabilið hjá Hlyni.

 

 

Breiddin

Stjörnumenn fengu einfaldlega ekkert af bekknum hjá sér í kvöld, það voru ungir menn sem komu af bekknum svo undirritaður ætlar ekkert að taka þá fyrir neitt sérstaklega, þeir gerðu það sem þeir gátu. Staðreyndin er samt sú að Stjarnan fékk 1 stig af bekknum hjá sér á meðan að ÍR fékk 25 stig af sínum bekk. Þar munaði mest um Hákön Örn með 12 stig og Sveinbjörn með 8.

 

 

Hetjan

Þarna kemur enginn annar til greina heldur en Danero Thomas. Hann barðist eins og ljón allan leikinn, skoraði 24 stig og tók ógrynni af fráköstum, heil 21 í heildina, þar af 18 í vörn. Hann setti svo sigurkörfuna í lokin. Það var gríðarlega mikilvægt fyrir ÍR að fá þetta framlag frá Danero þar sem Ryan Taylor var ekki með og þeirra aðal-leikstjórnandi var í vandræðum með skotin sín, Matthías skoraði 14 stig úr 16 skotum, 0 af 4 á vítalínunni og átti erfitt uppdráttar í dag.

 

 

Tölfræði leiksins

 

 

Umfjöllun Sigurður Orri Kristjánsson

Mynd Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -