Breiðablik tók á móti Hamri í kvöld í öðrum leik liðanna í úrslitarimmu 1. deildar karla. Í fyrsta leik liðanna, sem var framlengdur, unnu Blikar með 4 stigum og gátu tryggt sér 2-0 forystu með sigri í kvöld. Það gekk eftir því að Breiðablik vann í hörkuspennandi leik með naumum sigri; 87-84.
Gangur leiksins
Hamar opnaði leikinn með því að setja fyrstu 7 stiginn áður en 2 mínútur voru liðnar. Það tók Breiðablik hins vegar ekki lengi að ná gestunum, enda settu þeir næstu 13 stig leiksins áður en Hvergerðingar gátu skorað á nýjan leik. Liðin hófu að skiptast á körfum en gestirnir bláklæddu gátu skilið sig aðeins frá heimamönnum svo að staðan var 21-25 þegar fyrstu 10 mínúturnar voru liðnar.
Blikar gátu tekið forystuna á ný í öðrum leikhlutanum þegar þeir fóru að spila fastar, keyra meira á Hamar og sækja sóknarfráköst. Gestirnir gátu ekki skorað fyrstu þrjár mínútur leiksins en fóru að sækja í sig veðrið á ný eftir það á sama tíma og Breiðablik fór að hökta eilítið sóknarlega og gáfu boltann nokkuð oft frá sér fyrir litlar sakir (tapaðir boltar og erfið skot). Heimamenn kláruðu leikhlutann nokkurn veginn eins og Hamar byrjaði hann. Á seinustu þrem mínútum fyrri hálfleiks skoruðu þeir aðeins 4 stig gegn 11 stigum Hvergerðinga og staðan í hálfleik var því orðin 41-48.
Það gekk illa hjá Blikum í seinni hálfleik að minnka muninn og á fyrstu mínútunum virtust þeir mestan partinn bara taka lélegar ákvarðanir sóknarlega, bæði hvað varðar skot og sendingar, og Hamar gat breikkað bilið í 13 stiga mun. Þá fór Breiðablik aftur af stað og með hjálp Jeremy Smith, sem var skipt inn á um þessar mundir, gátu Blikar saxað all verulega á forskot gestanna. Á lokasekúndu leikhlutans kom mjög kjánalegt atvik upp á þar sem minnstu munaði að Ísak Sigurðsson skoraði sjálfskörfu þegar skotklukkan rann út þó að nokkur sekúndubrot væru eftir á leikklukkunni. Hann tók varnarfrákast og kastaði boltanum í átt að körfu andstæðinganna svo að boltinn fór ofan í. Á gólfinu dæmdu dómarar körfuna góða en að vel ígrunduðu máli í leikhlutaskiptunum komust þeir að því að Ísak hefði enn haft boltann í höndunum þegar leikhlutaflautan gall. Staðan var því 65-70 þegar aðeins lokafjórðungurinn var eftir.
Lokafjórðungurinn varð æsispennandi og jafn og þegar tæpar þrjár mínútur voru til leiksloka setti Árni Elmar stóra körfu og fékk óíþróttamannslegt víti að auki til að koma Blikum tveimur stigum yfir Hamar og fá boltann aftur. Breiðablik missti hins vegar boltann í sókninni sem að fylgdi og stuttu seinna svaraði Þorgeir Freyr Gíslason kallinu með þristi til að koma gestunum aftur fram úr Blikum. Aftur steig Árni Elmar upp og setti stóran þrist í næstu sókn til að koma heimamönnum aftur í forystuna. Síðasta rúma mínútan einkenndist af mistökum hjá báðum liðum og þegar þrjú stig skildu liðin að og 13,6 sekúndur voru eftir á leikklukku fengu Hamarsmenn þrjú skot í sömu sókn til að merja framlengingu. Ekkert þeirra rataði hins vegar rétta leið og Breiðablik vann því leikinn 87-84.
Tölfræðin lýgur ekki
Hamar hitti betur úr skotum sínum utan af velli í þessum leik en þeim seinasta (41% í leik 1 vs. 44% í leik 2). Það dugði hins vegar ekki til því að stærð Blika inn í teig skilaði sér í miklu fleiri vítum (28 vítaskot hjá Breiðablik vs. 16 víti hjá Hamri) og miklu fleiri sóknarfráköstum (21 vs. 12 hjá Hamri). Þau sóknarfráköst skiluðu 9 aukastigum og þau ásamt fleiri vítaskotum dugðu til að vega upp á móti afleitri þriggja stiga nýtingu (23,1% nýting í þristum hjá Breiðablik).
Hetjan
Hetja kvöldsins verður líklegast að vera Árni Elmar Hrafnsson. Eftir brösuga byrjun og að hafa aðeins sett 2 af fyrstu 7 þristunum sínum þurfti Árni Elmar að yfirgefa völlinn með fjórar villur þegar þriðji leikhlutinn var aðeins hálfnaður. Hann varð að fylgjast með leiknum frá varamannabekknum næstu 7 mínúturnar þar til honum var skipt inn á með 5 mínútur til leiksloka. Árni Elmar setti 2 af næstu 3 þriggja skotunum sínum ásamt því að skora og fá villu og víti þar að auki, sem að hann setti. Árni lauk leik með 40% þriggja stiga nýtingu (4/10 í þristum), skoraði 17 stig, tók 6 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Aðrir flottir hjá Breiðablik voru þeir Snorri Vignisson (næst stigahæsti Blikinn með 15 stig), Jeremy Smith (12 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar) og Erlendur Ágúst Stefánsson (12 stig, 4 sóknarfráköst og 7 stoðsendingar). Hjá Hamri var Julian Nelson framlagshæstur (23 framlagspunktar, hæst meðal beggja liða) með 20 stig, 9 fráköst og 3 stolna bolta, þó að Larry Thomas hafi verið sá erlendi leikmaður sem að Pétur Ingvarsson, þjálfari Hamars, kaus að hafa á vellinum á lokamínútunum (Thomas lauk leik með 14 stig, 3 fráköst og 6 stoðsendingar).
Kjarninn
Blikar eiga nú aðeins eftir að vinna einn leik í viðbót til að tryggja sér sæti í Domino's deild karla á næsta tímabili. Næsti leikur verður mjög mikilvægur fyrir þá og þeir hljóta að vera meðvitaðir um að Hamarsmenn muni mæta bandbrjálaðir í leikinn og reyna að snúa séríunni við. Sigur Hvergerðinga í þriðja leik gæti slegið Blika nægilega út af laginu til að sérían fari í fjóra leiki, og jafnvel oddaleik. Pétur Ingvars sagði í viðtali eftir leikinn að þetta væri dálítil spurning um "þriðja markið" (sem talað er um í fótbolta), þ.e.a.s. að þetta sé spurning um hvort að liðið sem sé með yfirhöndina klári þetta eða að liðið sem sé undir nái að koma sér af stað með því að nái "þeim þriðja". Það er allavega augljóst að næsti leikur gæti verið sá allra mikilvægasti í séríunni.
Tölfræði leiksins
Myndasafn (Bjarni Antons)
Viðtöl eftir leikinn:
"Þeir eru ekki að fara að leggjast niður og gefast upp."
"Vildi bara bæta þetta upp fyrir liðsfélagana."
"Ég segi að við séum með betra lið en þeir."