Fyrir leik
Hér í kvöld mættust lið Hauka og KR í þriðja leik undanúrslita Dominos deildarinnar. Staðan í einvíginu var 1-1 eftir að KR jafnaði í DHL höllinni síðastliðinn mánudag. Ljóst var að um hörkuleik var að fara að ræða í Hafnarfirði í kvöld.
Gangur leiks
Leikurinn fór jafnt af stað og skiptust lið á að skora en KR-ingar náðu mest í 10 stiga forystu í fyrri hálfleik en Haukarnir náðu að saxa það niður og leiddu í hálfleik 37-35. Stigahæstur Hauka í hálfleik var Emil Barja með 11 en KR meginn var það Darri Hilmarsson með 9 stig. Seinni hálfleikur fór frábærlega af stað og voru menn að henda niður 3ja stiga körfum og setti Brynjar Þór niður 2 í röð en hann var stigalaus í hálfleik. Liðin héldust mikið í hendur og voru að skiptast á körfum allan leikinn. Staðan í lok þriðja leikhluta var 56-55 Haukum í vil. KR-ingar náðu sér í smá forystu þegar 15 sek voru eftir en Kári Jóns var ekki á því máli að tapa þessum leik og setti niður 2 risastóra þrista en KR-ingar voru hins vegar góðir á línunni og náðu að tryggja sér eins stigs sigur 83-84.
Lykillinn
Stigaskorum beggja liða var vel dreift og voru margir að leggja sitt í púkkið. Því er erfitt að velja lykilmenn en Brynjar Þór kom gríðarlega sterkur inn í seinni hálfleikinn og setti 16 stig og Kristófer Acox einnig flottur hér í kvöld. Kári Jónsson var að vana frábær Haukamegin.
Kjarninn
Eins og áður kom fram þá voru margir að skora og leggja sitt af mörkunum en varnir beggja liða voru flottar hér í kvöld og voru menn vel stilltir. Það voru allir tilbúnir að berjast fyrir hvorn annan og var ljóst að þessi leikur yrði tæpur og myndi þetta með einnar körfu mun.
Samantektin
Hörkuleik lokið hérna í Schenker höllinni þar sem bæði lið hefðu getað unnið í þessum spennuþrungna leik.
Umfjöllun, viðtöl / Axel Örn
Viðtöl: