spot_img
HomeFréttirBreiðablik er orðið úrvalsdeildarlið - unnu Hamar í fjórum leikjum

Breiðablik er orðið úrvalsdeildarlið – unnu Hamar í fjórum leikjum

Breiðablik tók á móti Hamri í kvöld í fjórða leik liðanna í úrslitarimmu 1. deildar karla. Í þriðja leik liðanna misstu Blikar niður 15 stiga forskot í seinni hálfleiknum og þurftu að sætta sig við tap gegn Hvergerðingum í Frystikistunni. Blikar gátu tryggt sér upp í Domino's deildina með sigri í kvöld á meðan að Hamarsmenn gátu með sigri sent rimmuna í oddaleik á þeirra heimavelli næsta mánudag. Eftir æsispennandi leik náðu Blikar með frábærum fjórða leikhluta að gera út um leikinn og unnu að lokum örugglega, 110-84. 
 

Gangur leiksins

Breiðablik byrjuðu leikinn með körfu og liðin hófust handa við að skiptast á körfum. Það voru aldrei meira en nokkur stig sem að skildu liðin að og ljóst að bæði voru mætt til að vinna. Eftir fimm mínútur tók Pétur Ingvarsson, þjálfari Hamars, svokallaða "hokkískiptingu" þar sem hann skipti öllu liðinu út samtímis og bekkurinn hélt áfram að skila sínu. Jeremy Smith, sem kom af bekknum í leiknum, var heldur spenntur í fyrstu og náði á rúmum þrem mínútum að sækja sér 3 villur svo hann varð að setjast aftur á bekkinn eftir örskamma stund. Blikar gátu hins vegar tekið forystuna undir lok leikhlutans og staðan var 23-21 eftir 10 mínútur.

Hamar hóf annan leikhlutann með 5 stigum í röð og gestirnir komust þar með fram úr heimamönnum. Breiðablik var þó ekki lengi að svara með eigin 5 stigum í röð og munurinn aftur kominn í 2 stig. Liðin hófu aftur að skiptast á körfum og aftur kom fimm manna hokkískipting hjá Hamri þegar leikhlutinn var hálfnaður. Hamarsmenn virtust ætla að þreyta Blika með óþreyttum og sókndjörfum leikmönnum en aftur náðu Blikar að vinna leikhlutann með 2 stigum þannig að staðan í hálfleik var 51-47 þegar flautað var til hálfleiks. 

Áfram héldu liðin að skiptast á körfum og fyrri part leikhlutans virtist allt ætla að verða jafnt milli liðanna. Blikar fóru hins vegar að sýna svipaða takta og þeir höfðu gert í seinasta leik með því að tapa boltanum á slæmum stöðum og með því að taka ótímabær skot. Hamar gekk á lagið og náðu á lokamínútum leikhlutans að skora 6 stig í röð og minnka muninn í 2 stig þegar aðeins lokafjórðungurinn var eftir. Staðan fyrir fjórða leikhlutann var 74-72 og meðbyrinn virtist vera með gestunum.

Bæði lið byrjuðu með þristi í lokafjórðungnum og Hamarsmenn héldu áfram að pressa allan völlinn eins og þeir höfðu gert allan leikinn. Blikar héldu áfram að breikka bilið og það sást að þeir ætluðu sér ekki að gera sömu mistök og í seinasta leik. Þeir stilltu upp í sóknunum sínum og lokuðu vel á Hamar á hinum enda vallarins. Breiðablik fór að raða niður skotunum og sækja sóknarfráköstin ef að þeir skildu klikka á skotunum sínum. Hamar fór að verða örari og örari í sóknunum sínum og þeir uppskáru ekki mörg stig á þeim tíma. Leikhlutanum lauk 36-12 fyrir Blikum og þeir unnu því leikinn að lokum 110-84.
 

Þáttaskil

Í lok þriðja leikhluta tóku Hamarsmenn smá áhlaup til að minnka muninn í 2 stig fyrir lokaleikhlutann og útlit var fyrir að Blikar væru mögulega að fara endurtaka seinasta fjórðunginn í seinasta leik. Breiðablik tók sig hins vegar til og þeir fóru að spila með hjartanu í vörninni og með hausnum í sókninni. Heimamenn börðust eins og ljón á sama tíma og þeir hægðu á þegar við átti í sókninni og spiluðu af mikilli skynsemi. Hamar fór á sama tíma að hitta verr og verr og þeir enduðu á því að falla algerlega saman á lokakaflanum (36-12 lokaleikhluti).
 

Tölfræðin lýgur ekki

Breiðablik unnu frákastabaráttuna í kvöld og áttu hreinlega sóknarfráköstin (23 sóknarfráköst gegn 12 hjá Hamri). Þeir hittu líka betur utan af velli (46,2% gegn 40,0% hjá Hamri) og pössuðu mjög vel upp á boltann í kvöld (einungis 10 tapaðir boltar gegn 18 hjá Hvergerðingum). Það sem vann leikinn var að lokum skoraðar körfur eftir sóknarfrákast, en Blikar fengu 26 stig úr sóknarfráköstum gegn aðeins 9 slíkum hjá Hamri, og öll stigin sem að þeir gátu skorað inni í teig (62 stig gegn 34 inni í teig).

 

Hetjan

Hetja kvöldsins er Chris Woods hjá Breiðablik, án nokkurs vafa. Woods, sem var á seinasta ári að spila með Hamri í von um að komast upp í úrvalsdeildina, lauk leik með 26 stig, 17 fráköst (þ.a. 11 sóknarfráköst), 3 stuldi og 7 fiskaðar villur (á heildina 31 framlagsstig). Snorri Vignisson var reyndar framlagshærri í leiknum, en hann hafði 32 framlagspunkta í leiknum, einu stigi meira en liðsfélagi hans Woods. Snorri skoraði 16 stig, tók 13 fráköst, gaf 3 stoðsendingar, stal 4 boltum og varði eitt skot. Glæsileg frammistaða þar á ferð hjá þeim og reyndar langflestum í liði Blika. Besti leikmaður Hamars var að þessu sinni Ísak Sigurðarson, en hann skoraði 16 stig, tók 8 fráköst og hitti mjög vel utan af velli (54,5% skotnýting). Ísak varð svo ólánsamur að meiðast á fæti á lokasekúndum leiksins og vonumst við til að hann hafi ekki meiðst illa. Larry Thomas og Julian Nelsons áttu ekki sína bestu leiki, en þeir skoruðu 14 og 13 stig í leiknum og voru báðir undir 20 í framlagi.
 

Kjarninn

Þá er Breiðablik komið í Domino's deild karla á næsta tímabili og eru þeir vel að því komnir. Stúkan í kvöld var þétt setin og talið er að tæpir 1000 áhorfendur hafi sótt leikinn. Blikar munu eiga vel heima í úrvalsdeildinni ef að helmingur þessara áhorfenda mætir að jafnaði á leikina hjá sínum mönnum á næsta ári. Eftir stormasamt ár þar sem þeir bættu við sig erlendum leikmanni um áramótin og létu síðan þjálfara liðsins fara með tvo mánuði eftir af tímabilinu hafa þeir uppskorið vel. Liðið stóð saman, fékk Jónas Pétur Ólason, gamlan Blika, til að stýra bekknum og sýndu hvað í þeim bjó. Hamarsmenn hafa núna farið í úrslitaséríu 1. deildar karla annað árið í röð og tapað lokaleiknum mjög illa. Eftir að hafa verið spáð 8. sæti í spá Karfan.is í upphafi tímabilsins tróðu þeir upp sokknum upp í undirritaðan og sýndu að þeir eru gott lið sem varast ber að vanmeta. Þeir ná mögulega að vinna þetta í þriðju tilraun á næsta ári. Kemur í ljós. 

Til hamingju með að vera komnir upp í Domino's deildina, Breiðablik!
 

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Bjarni Antons)
 

Viðtöl eftir leikinn:

"Það hafði engin trú á að við gætum klárað þetta."

"Tilfinningin er geggjuð!"

"Ætluðum okkur upp."

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bjarni Antonsson

Fréttir
- Auglýsing -