Þriðji leikur úrslitarimmu Hauka og Vals í úrvalsdeild kvenna fór fram í kvöld á Ásvöllum. Haukar höfðu unnið fyrsta leikinn með 17 stigum og Valsstúlkur unnið seinni leikinn með fjórum stigum. Staðan var því 1-1 og ljóst að það lið sem að ynni í kvöld væri aðeins einum sigri frá Íslandsmeistaratitlinum. Leikurinn var upp og niður með mörgum áhlaupum en Haukar tóku seinasta áhlaupið og það dugði til að tryggja þeim sigur, 96-85.
Gangur leiksins
Haukar voru strax sókndjarfari og gátu sótt sex sóknarfráköst á meðan að Valsstúlkur tóku aðeins fimm varnarfráköst og engin sóknarfráköst. Á fyrstu mínútunum voru Helena Sverrisdóttir, Whitney Frazier og Aaliyah Whiteside þær einu sem skoruðu en það varði ekki lengi. Fleiri leikmenn fóru að skora og Valur tók forystuna á 7. mínútu. Liðin skiptust þá á að taka lítil áhlaup og staðan í lok leikhlutans var 24-26 fyrir Val.
Dagbjört Samúelsdóttir byrjaði annan leikhlutann mjög vel og skoraði fyrstu sex stig Valsstúlkna. Haukar hættu þó ekki og þristur í hraðaupphlaupi frá Helenu kom Haukum aftur yfir í miðjum leikhlutanum, þó að Aaliyah hafi fljótlega komið Val aftur yfir. Fljótlega eftir það fengu gestirnir ekki vafadóm og virtust eyða næstu mínútum í að pirra sig á óréttlætinu. Haukar nýttu einbeitingarleysið og tóku 10-0 áhlaup áður en Elín Sóley Hrafnkelsdóttir gat stöðvað blæðinguna með sniðskoti. Það dugði þó ekki nægilega vel til og eftir að liðin skiptust aftur á körfum lauk fyrri hálfleik í stöðunni 51-45, Haukum í vil.
Haukar komu rétt stemmdir inn í seinni hálfleikinn og hófu þriðja leikhlutann á því að taka 15-4 áhlaup áður en Darri Freyr, þjálfari Vals, sá sig tilneyddan að taka leikhlé eftir tæpar 3 mínútur. Það virtist sem að Valur ætlaði að reyna að ná niður muninum strax í hverri sókn, þ.e.a.s. taka fyrsta hálf opna skotið sem gekk ekki alltaf upp. Haukar voru á sama tíma með hreyfanlega sókn og gátu sótt körfur bæði fyrir innan og utan þriggja stiga línuna. Valur gat rétt af flugið aðeins undir lok leikhlutans en skotnýtingin var ekki nógu góð og gestirnir frá Hlíðarenda voru enn að gera of mikið af mistökum. Staðan í lok þriðja: 71-59, Haukum í vil.
Þó að Valsstúlkur mættu ekki í upphafi þriðja leikhlutans voru þær svo sannarlega mættar í upphafi fjórða. Valsarar voru ágengar í vörninni og duglegar að stoppa Haukastelpurnar. Ingvar Þór, þjálfari Hauka, tók fljótlega leikhlé eftir rúmar tvær mínútur þegar Valur var 8 stigum frá Haukum og Aaliyah á leiðinni á vítalínuna. Leikhléið gagnaðist ekki mikið í fyrstu enda gat Valur minnkað muninn í 3 stig með hraðaupphlaupsþristi hjá Guðbjörgu Sverrisdóttur. Haukar virtust þá hrista af sér slenið og tóku sitt eigið áhlaup til að þagga niður í áhorfendum Valsara, sem voru orðnir ansi háværir. Darri Freyr tók annað leikhlé en skaðinn var skeður, Haukar voru komnir í stöðuna 83-72 og létu ekki af forystunni. Leiknum lauk með 11 stiga mun, 96-85, Haukum í vil.
Tölfræðin lýgur ekki
Haukar töpuðu sóknarfrákastabaráttunni í leik 1 á Ásvöllum en unnu hann ansi sannfærandi núna. Heimastúlkur tóku 17 fráköst gegn 8 hjá Völsurum og fengu þ.a.l. fleiri skottækifæri sem að dugðu til sigurs. Þriggja stiga hittni Hauka var líka vel yfir meðaltali þeirra í úrslitakeppninni (8,8 3ja stiga skot hitt að meðaltali í leik) enda hittu þær úr 14 þristum í leiknum í 29 tilraunum. Haukar hafa aðeins einu sinni á liðnu tímabili hitt svona vel úr þristum (þær hittu úr 14 þristum gegn Keflavík 13. des. 2017) og þurftu til þess fleiri tilraunir (32 þriggja stiga tilraunir). Erfitt að vinna lið sem að hittir svona vel fyrir utan og sækir svona mörg sóknarfráköst í ofanálag.
Bestar hjá liðunum
Whitney Frazier átti annan góðan leik með 28 stig, 15 fráköst, 3 stoðsendingar og 9 fiskaðar villur. Helena Sverrisdóttir sótti enn aðra þrefalda tvennu (þetta fer að verða þreytt, samt ekki) og skoraði 16 stig, tók 10 fráköst, gaf 14 stoðsendingar og stal þar að auki 5 boltum. Þóra Kristín átti mjög góðan leik með 22 stig (þ.a. 4/7 í þristum), 3 fráköst og 2 stoðsendingar. Hjá Völsurum var Aaliyah Whiteside framlagshæst með 24 stig, 5 fráköst, 5 stoðsendingar og 8 stolna bolta (29 framlagsstig á heildina).
Kjarninn
Heimasigur, heimasigur, heimasigur. Heimavöllurinn hefur verið sterkur hingað til og Haukar sýndu það í kvöld með magnaðari skotsýningu. Valsstúlkur verða að bæta sig í frákastabaráttunni og vera duglegari að fara út í skotmenn Hauka ef að þær vilja annan heimasigur. Haukar eru allavega komnir á bragðið og þurfa bara einn sigur í viðbót til að ná titlinum. Þeim er eflaust alveg sama þó að sá sigur komi á útivelli.
Tölfræði leiksins
Myndasafn (Bára Dröfn)
Viðtöl eftir leikinn:
"Vilji og barátta hjá mínum stelpum."
"Við þurfum bara að vera ákveðnari."
Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndasafn / Bára Dröfn Kristinsdóttir