spot_img
HomeFréttirValur vann í háspennuleik, sérían jöfn 2-2

Valur vann í háspennuleik, sérían jöfn 2-2

Leikur 4 á milli Vals og Hauka í úrslitarimmu úrvalsdeildar kvenna fór fram í kvöld að Hlíðarenda. Allir leikir höfðu verið heimasigrar hingað til og Valur þurfti einmitt einn slíkan til að merja oddaleik á Ásvöllum næsta mánudagskvöld. Haukar hefðu aftur á móti getað lokið séríunni og unnið Íslandsmeistaratitilinn ef að þær ynnu í kvöld. Fyrir framan ca. 800 áhorfendur buðu liðin upp á hörkuleik þar sem Valsstúlkur voru aðeins betri og unnu naumlega 68-66.
 

Gangur leiksins

Haukar opnuðu leikinn með þristi en fengu strax í kjölfarið átta stig í andlitið í boði Valsstúlkna. Fyrsti þristur Hauka reyndist vera sá eini sem að fór niður í leikhlutanum í átta tilraunum á meðan að Valsstúlkur voru duglegar að sækja inn í teig. Á 6. mínútu eftir þrist frá Guðbjörgu Sverrisdóttur sá Ingvar Þór, þjálfari Hauka, sig knúinn til að taka leikhlé og ræða afhverju staðan væri 15-6 fyrir heimastúlkum. Gestirnir náðu aðeins að rétt flugið af eftir það og staðan eftir fyrsta leikhluta var því 20-13, Val í vil.

Valur hélt áfram að spila hörkuvörn og hreyfa boltann vel í sókninni í öðrum leikhlutanum. Elín Sóley Hrafnkelsdóttir átti frábæran fjórðung og skoraði níu stig ásamt því að sækja þrjár villur, taka þrjú fráköst og verja eitt skot. Heimastúlkur komust mest 14 stigum fram úr Haukum, en gestirnir gátu aðeins hert sig undir lok leikhlutans og liðin skildu í hálfleik í stöðunni 39-29, Valur 10 stigum yfir.

Liðin skiptust á að skora í byrjun þriðja leikhlutans en Haukum tókst jafnt og þétt að neyða Val í lélegar ákvarðanir þannig að gestirnir gátu tekið 2-10 áhlaup til að koma muninum í aðeins fjögur stig. Þá ákvað Darri Freyr, þjálfari Vals, að nýta leikhlé og strax í kjölfarið tóku Valsstúlkur sitt eigið 7-2 áhlaup sem varð til þess að Ingvar Þór varð að taka sitt eigið leikhlé. Það lagaði stöðuna aðeins um 2 stig og staðan í loka þriðja leikhluta var því 53-46, heimaliðinu í vil.

Valur gátu haldið muninum í kringum átta stig mest allan leikhlutann en Haukar voru alltaf líklegar til að saxa niður muninn með nokkrum vel völdum skotum. Vandinn var að þriggja stiga skotin hjá Haukum voru ekki að detta, enda höfðu þær aðeins hitt úr 5 þristum í 28 tilraunum (17,9% nýting) þegar fjórar mínútur lifðu leiks og Valur yfir með 9 stigum. Haukar áttu þá eitt lokaáhlaup þar sem Helena Sverrisdóttir og Anna Lóa Óskarsdóttir settu sitt hvorn þristinn og Þóra Kristín setti sniðskot til að koma muninum í eitt stig. Við tóku æsispennandi lokamínútur þar sem Valur gat haldið í tveggja stiga forystu og þó Haukar fengu lokatækfærið til að jafna eða vinna allt misnotuðu þær það. Leiknum lauk eins og áður sagði 68-66, Val í vil.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Haukar unnu sóknarfrákastabaráttuna aftur í þessum leik en skotnýting þeirra fyrir utan þriggja stiga línuna var því miður talsvert slakari en í seinasta leik (22% nýting í þessum leik vs. 48% í þeim seinasta) og í svona naumum leik dugði það til. Það verður líka ekki tekið af Valsstúlkum að þær voru duglegar að sækja inn í teiginn í fyrri hálfleik (24 stig vs. 8 stig hjá Haukum inni í teig eftir fyrstu 20 mínúturnar) og nýttu skotin sín miklu betur í leiknum (46% í 59 skotum utan af velli vs. 35% í 72 skotum utan af velli hjá Haukum).
 

Bestar hjá liðunum

Guðbjög Sverrisdóttir var best í sínu liði að þessu sinni með 19 stig, 8 fráköst og magnaða skotnýtingu. Gugga, eins og hún er jafnan kölluð, nýtti 73% skota sinna í leiknum en hún hefur að meðaltali nýtt 39% skota sinna í fyrstu þrem leikjunum. Hún steig vissulega upp í leiknum þó að hún hafi einungis sótt eina villu og ekki tekið eitt einasta víti. Elín Sóley var líka mjög góð í leiknum, en hún skoraði 15 stig og tók 12 fráköst, þ.a. 5 sóknarfráköst. Aaliyah Whiteside skoraði sömuleiðis 15 stig og tók 7 fráköst þar að auki. Hjá Haukum var Helena Sverrisdóttir með 20 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar. Þetta er fyrsti leikurinn hennar í þessarri séríu þar sem að hún nær ekki þrefaldri tvennu. Rósa Björk Pétursdóttir var næst stigahæst með 17 stig og bestu skotnýtinguna innan síns liðs (54%). Whitney Frazier skoraði 13 stig og tók 13 fráköst (þ.a. 5 sóknarfráköst). Anna Lóa skoraði ekki nema 10 stig í leiknum en hún átti mjög góða innkomu og var ein fárra Haukastelpna til að vera með jákvæða plús/mínús tölfræði (+3 stig).
 

Kjarninn

Heimasigur, heimasigur, heimasigur, heimasigur. Heimavöllurinn er ennþá sterkur og Valur náðu öðrum naumum sigri á Hlíðarenda í úrslitarimmunni. Leikurinn var ekki ósvipaður seinasta leiknum í Valshöllinni að því leyti að Haukum tókst næstum því að stela sigri með áhlaupi í fjórða leikhlutanum en Valur gat haldið aftur af deildarmeisturunum í annað sinn. Þá er bara oddaleikurinn eftir! Leikur á Ásvöllum næsta mánudag (frídagur daginn eftir) og spurning hvort að Valur geti hrifsað til sín útisigurinn sem þarf til að vinna Íslandsmeistaratitilinn eða hvort að Haukar haldi í hefðina og vinni enn einn heimasigurinn til að loka tímabilinu hjá sér með bikarnum eftirsótta? Kemur í ljós!
 

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Bára Dröfn)
 

Viðtöl eftir leikinn:

"Hlökkum til að eiga heimaleik á Ásvöllum á mánudag."

"Ekki sjéns að eitthvað annað lið sé að fara að taka á móti [Íslandsmeistaratitlinum] hér."

"Þurfum að mæta klárari heldur en við gerðum í dag."

"Mæta tilbúnar á mánudaginn."

Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson
Viðtöl / Ólafur Þór Jónsson og Davíð Eldur Baldursson

Myndasafn / Bára Dröfn Kristinsdóttir

Fréttir
- Auglýsing -