Körfuknattleiksdeild Grindvíkur tilkynnti í gær að liðið hefði samið við fjóra leikmenn um að leika með liðinu á næstu leiktíð. Tveir þeirra koma til liðsins annarsstaðar frá en tveir framlengja samning sinn við liðið.
Leikstjórnandinn Hlynur Hreinsson mun leika með Grindavík á næstu leiktíð. Hann kemur frá FSu þar sem hann hefur verið lykilmaður síðustu ár. Hlynur var með 12,2 stig og 4,9 stoðsendingar að meðaltali í 1. deildinni á nýliðinni leiktíð.
Þá hefur Nökkvi Harðarson snúið heim til Grindvíkur frá Vestra. Nökkvi hefur leikið með Vestra síðustu ár og var fyrirliði liðsins á síðustu leiktíð þar sem hann var með 9,2 stig að meðaltali í leik.
Þá endurnýjuðu þeir Kristófer Breki Gylfason og Hilmir Kristjánsson samninga sína við liðið en þeir munu væntanlega fá stærra hlutverk í liðinu á komandi leiktíð í Dominos deildinni.