spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaRaquel hetja Íslandsmeistara Njarðvíkur sem lagði topplið Keflavíkur með minnsta mun mögulegum

Raquel hetja Íslandsmeistara Njarðvíkur sem lagði topplið Keflavíkur með minnsta mun mögulegum

Njarðvík lagði Keflavík í Ljónagryfjunni í kvöld í Subway deild kvenna, 73-72. Eftir leikinn er Keflavík í efsta sæti deildarinnar með 42 stig á meðan að Njarðvík er í 4. sætinu með 28 stig.

Gangur leiks

Gestirnir úr Keflavík byrjuðu leik kvöldsins betur og leiddu mest með 8 stigum um miðbygg fyrsta leikhlutans. Heimakonur í Njarðvík eru þó snöggar að ranka við sér og eru komnar stigi á undan þegar sá fyrsti er á enda, 16-15. Í öðrum leikhlutanum var svo komið að Njarðvík að vera skrefinu á undan. Hóta því í nokkur skipti að taka forystuna almennilega undir lok fyrri hálfleiksins, en Keflavík gerir vel að halda í við þær og eru þær 4 stigum yfir þegar liðin halda til búningsherbergja, 33-37.

Stigahæst í liði heimakvenna í fyrri hálfleiknum var Raquel De Lima Viegas Laneiro með 12 stig á meðan að Daniela Wallen var komin með 16 stig fyrir Keflavík.

Keflavík nær svo að hanga á forystu sinni inn í seinni hálfleikinn. Lykilleikmaður þeirra Daniela Wallen heldur áfram að setja stig á töfluna og er komin með 23 stig þegar að þriðji fjórðungur er á enda, en þá leiða þær með 7 stigum, 52-59.

Keflavík nær svo að halda í forystuna nánast allan fjórða leikhlutann. Undir lokin ná heimakonur þó að gera leikinn virkilega spennandi með því að komast aðeins stigi frá þeim þegar um 20 sekundur eru eftir, 72-73. Njarðvík fær svo kjörið tækifæri til þess að jafna leikinn með 12 sekúndur eftir í stöðunni 72-74. Þær kasta þó boltanum frá sér, en í framhaldi klikkar Keflavík á tveimur vítum og Njarðvík kemst aftur í sókn þar sem að Raquel setur þrist og kemur Njarðvík í forystu með 1.1 sekúndu eftir, 73-72. Keflavík nær ekki skoti og Njarðvík sigrar með minnsta mun mögulegum, 73-72.

Atkvæðamestar

Atkvæðamest fyrir Njarðvík í leiknum var Isabella Ósk Sigurðardóttir með 13 stig og 11 fráköst.

Fyrir Keflavík var það Daniela Wallen sem dró vagninn með 25 stigum og 11 fráköstum.

Kjarninn

Sigur í kvöld skipti í raun og veru ekki öllu máli fyrir Njarðvík sem eru öruggar inn í úrslitakeppnina í 4. sæti deildarinnar með enga von um að komast nokkuð hærra. Þær hefðu þó getað sett stein í götu Keflavíkur sem eru í harðri baráttu við Val um efsta sætið og heimavöll út úrslitakeppnina.

Vegna tapsins þarf Keflavík nú að leggja Val í næstu umferð ef þær ætla sér að eiga möguleika á að vinna deildarmeistaratitilinn.

Hvað svo?

Bæði lið eiga leik næst komandi miðvikudag 15. mars, en þá fá Íslandsmeistarar Njarðvíkur nýliða ÍR í heimsókn og Keflavík tekur á móti Val.

Tölfræði leiks

https://www.karfan.is/2023/03/sjadu-rosalegan-thrist-raquel-sem-vann-leik-njardvikur-gegn-keflavik/
Fréttir
- Auglýsing -