Það er nóg að gera á skrifstofu körfuknattleiksdeildar Þórs Þorlákshafnar þessa dagana. Í gær var tilkynnt að liðið hafi samið við tvo erlenda leikmenn og í kvöld var skrifað undir samning við þann þriðja.
Gintautas Matulis mun leika með Þór Þ á næstu leiktíð en hann er gríðarlega sterkur leikmaður sem getur leikið nokkrar stöður. Frá þessu er greint á síðu Hafnarfrétta í kvöld.
Í frétt Hafnarfrétta segir: „Gintautas er fæddur árið 1986 og hefur leikið allan sinn feril í Litháen. Hann er fjölhæfur leikmaður sem getur spilað stöður 4, 3 og 2 en um er að ræða leikmann með mikla reynslu sem ætti að nýtast vel í ungu liði Þórsara.“
Gintautas lék í hinni gríðarlega sterku efstu deild í Litháen þar sem hann lék m.a. gegn liði Zalgiris Kaunas sem komst í undanúrslit Euroleague á nýliðnni leiktíð. Hann leik með Nevezis þar sem hann var með 7,2 stig að meðaltali á rúmum tuttugu mínútum. Þá lék hann einnig í FIBA Europe Cup.