Emil Barja er orðinn leikmaður KR en hann skrifaði undir samning við liðið á blaðamannafundi nú síðdegis. Karfan.is greindi frá því að félagaskiptin væru yfirvofandi fyrr í dag. Samningur Emils við KR er til tveggja ára.
Við sama tilefni var tilkynnt að Björn Kristjánsson hefur endurnýjað samning sinn við liðið um tvö ár en hann kom til liðsins á ný fyrir síðasta tímabil og var hluti af liðinu sem lyfti fimmta Íslandsmeistaratitlinum í röð. Björn hefur einnig leikið með Njarðvík, Stjörnunni og Breiðablik svo eitthvað er nefnt. Hann var með 10,4 stig að meðaltali með KR á síðustu leiktíð.
Einnig var tilkynnt að Hjalti Þór Vilhjálmsson taki við sem aðstoðarþjálfari Inga Þórs með meistaraflokk kvenna auk þess að þjálfa yngri flokka félagsins. Hjalti þjálfaði Þór Ak á síðustu leiktíð en er uppalinn hjá Fjölni þar sem hann lék og þjálfaði í mörg ár.
Karfan spjallaði við nýjan leikmann liðsins, Emil Barja, eftir að hann skrifaði undir í dag.