Undir 20 ára lið Íslands tapaði fyrr í kvöld fyrir Þýskalandi, 77-63 í 16 liða úrslitum A deildar Evrópumótsins í Chemnitz í Þýskalandi. Ísland fellur því úr leik en þátttöku okkar er ekki lokið þar sem leikið er um öll sæti mótsins og mikið í húfi að reyna að halda sætinu í A-deild.
Þýskaland eru gestgjafarnir á þessu U20 evrópumóti sem er eitt af hápunktum yngri flokka sumarsins í Evrópskum körfubolta. Meðal áhorfenda á leik dagsins var NBA stjarnan Dennis Schröder sem leikur með Atlanta Hawks auk Þýska landsliðsins.
Schröder er fæddur í bænum Braunschweig í Þýskalandi en hefur leikið með í NBA deildinni frá 2013. Hlutverk hans hjá Haukunum hefur aukist á síðustu árum en á síðasta tímabili var hann með 19,4 stig að meðaltali í slöku liði Atlanta í NBA deildinni.
Schröder ætti að þekkja nokkuð til Íslenskra leikmanna og landsliðsins því hann var í Þýska landsliðinu sem lék gegn því Íslenska á Eurobasket 2015 í Berlín.
Ekki fór betur en svo að Dennis sá sitt lið sigra Ísland sem mun leika um 9-16 sæti deildarinnar og er næsti leikur gríðarlega mikilvægur fyrir framhaldið. Ísland mun mæta Úkraínu á morgun kl 18:15 og mun sigurliðið leika um 9-12 sæti deildarinnar. Þrjú lið falla niður í B-deild og þýðir tap á morgun að Ísland þarf að vinna síðustu tvo leiki sína á mótinu ef það ætlar að halda sæti sínu í A-deild.