Birna Valgerður Benónýsdóttir hefur samið við Arizona háskólann um að leika með liðinu á þar næsta tímabili en þetta var tilkynnt á dögunum. Birna er önnur af tveimur leikmönnum sem þessi stóri háskóli semur við fyrir árið 2019.
Birna sem hefur verið lykilleikmaður í liði Keflavíkur sem varð bikarmeistari á síðustu leiktíð þrátt fyrir ungan aldur. Þessi 17 ára miðherji var með 9,1 stig og 3,5 fráköst að meðaltali á 18 mínútum á síðustu leiktíð með Keflavík. Hún er í lykilhlutverki hjá U18 landsliði stúlkna sem leikur á EM á næstunni.
Arizona Wildcats spila í hinni gríðarlega sterku Pac-12 deild í háskólaboltanum en þjálfari liðsins er Adia Barnes. Barnes lék í WNBA deildinni í sjö ár og með sterkum liðum í Evrópu. Liðið hefur sjö sinnum komist í Mars fárið en síðast árið 2005.
Komandi tímabil verður því það síðasta fyrir Birnu í Dominos deild kvenna en hún fer til Arizona sumarið 2019.
Icelandic center Birna Benonysdottir commits to Arizona https://t.co/LK6fq5KjI4
— SB Nation College (@sbncollege) June 3, 2018