Miðherjinn Mike Muscala á mögulega ekki sjö dagana sæla framundan. Í dag fóru í gegn leikmannaskipti þriggja liða þar sem hann var sendur frá Atlanta Hawks til Philadelphia 76ers, Justin Anderson frá 76ers til Hawks, Carmelo Anthony og valréttur (eða valréttir) frá Oklahoma City Thunder til Hawks og Dennis Shroder frá Hawks til Thunder og Timothé Luwawu-Cabarrot frá 76ers til Thunder.
Skipti sem að mestu eru merkileg fyrir þær sakir að fyrrum stjörnuleikmaðurinn Anthony var sendur til Hawks, þar sem samningur hans var gerður upp og hann þá frjáls ferða sinna (líklegast til Houston Rockets)
Skiptin einnig merkileg fyrir þær sakir hvað Muscala talaði illa um verðandi liðsfélaga sína í viðtali í síðasta febrúar. Þá, í Road Trippin podcasti Richard Jefferson og Channing Frye sagði Muscala:
“Mér er illa við Sixers, kann ekki vel við þá. Finnst eins og þeir rífi fullmikinn kjaft, þá sérstaklega (Joel) Embiid. Skil það fullkomlega að stundum opna leikmenn á sér kjaftinn, en stundum væri líka í lagi að leikmenn létu frammistöður sínar á vellinum bara tala fyrir sig. Mér finnst Embiid, sérstaklega, rífa of mikinn kjaft”
Sagði hann enn frekar:
“Ég held ekki endilega að þetta sé slæmt fyrir deildina. Þvert á móti skil ég skemmtanagildið í þessu og að fólk nærist á þessu. Á einhvern skrýtinn hátt ber ég þó einhverja virðingu fyrir því sem hann (Embiid) gerir. Það þarf mikinn hug og kjark að gera þetta”
Leikmennirnir, Muscala og Embiid, mættust í eitt skipti á vellinum í fyrra. Þá setti Embiid 21 stig, tók 12 fráköst og gaf 6 stoðsendingar á meðan að Muscala skoraði aðeins 2 stig.
Muscala að sjálfsögðu verið varaskeifa frá því hann kom inn í deildina fyrir fimm árum. Var þó með um 8 stig, 4 fráköst og stoðsendingu að meðaltali í leik í fyrra. Hann mun því að öllum líkindum verða varaskeifa Embiid í miðherjastöðunni á næsta tímabili, sem og að sjálfsögðu fá að kljást við hann á hverri einustu æfingu.