spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÓtímabær kraftröðun fyrir Dominos deild karla

Ótímabær kraftröðun fyrir Dominos deild karla

 

Mánaðarlega mun Karfan birta kraftröðun á komandi tímabili. Þar er ekki aðeins tekin til staða liðanna í deildinni, heldur einnig breytingar á leikmannahópum og það gengi, eða sú sveifla sem liðið er í á hverri stundu.

 

Nú þegar styttast fer í undirbúningstímabil flestra liða eru leikmannahópar liðanna að skýrast. Enn er margt óljóst en leikmannamarkaður sumarsins hefur verið ansi tíðindamikill.

 

Því er við hæfi að hefja tímabilið 2018-2019 á verulega ótímabærri kraftröðun. Þar er rýnt í stöðu liðanna á þessu tímabili og reynt að spá fyrir um möguleika þeirra. Tekið skal fram að röðunin er til gamans gerð enda ekki allt vatn runnið til sjávar og því líklegt að röðin muni sveiflast mikið í næstu kraftröðun.

 

Örvarnar munu á næsta lista merkja færslu liða á milli mánaða en í þetta sinn eru þær miðaðar við endanlega stöðu liðs í deildarkeppninni á síðasta tímabili.

 

 

 

#1: Tindastóll

 

Er þetta árið fyrir Skagfirðinga? Danero Thomas, Urald King og Brynjar Þór ættu að koma liðinu á hæsta stall og í byrjun sumars var nánast búið að afhenta liðinu Sindra stálið fyrir næstu leiktíð. Brotthvarf Arnars til Grindavíkur er þó mikill skellur en liðið er enn ótrúlega vel mannað og verður að öllu óbreyttu í titilbaráttu.

 

 

Komnir:

Danero Thomas frá ÍR

Urald King frá Val

Brynjar Þór Björnsson frá KR

 

Farnir:

Björgvin Hafþór Ríkharðsson til Skallagríms

Christoper Caird til Selfoss

Chris Davenport

Sigtryggur Arnar Björnsson til Grindavíkur

 

 

#2: Stjarnan

 

Ásamt Tindastól, er Stjarnan það lið sem bætt hefur mestu við þetta sumarið. Náðu sér í nýjan þjálfara í Arnari Guðjónssyni, leikstjórnanda í Ægi Þór Steinarssyni og munu geta notað Collin Pryor sem íslenskaðan leikmann á næsta tímabili. Höfðu reyndar einnig náð aftur í heimamanninn Dag Kár Jónsson líka, en samkvæmt fréttum þessa vikuna verður ekkert af því þar sem hann er að fara að spila í efstu deild í Austurríki. Þessar viðbætur við annars fínan hóp liðsins teljum við að eigi eftir að fara með þá langt. Hvort það verður alla leið er að sjálfsögðu óráðið, en verði það ekki langt er það deginum ljósara að um vonbrigði verður að ræða.

 

Komnir:

Dagur Kár Jónsson frá Grindavík

Ægir Þór Steinarsson frá Tau Castello

 

 

Farnir:

Darrell Combs óljóst

Róbert Sigurðsson til Fjölnis

Dagur Kár Jónsson til Austurríkis

 

 

#3: Keflavík

 

Eftir furðulegt tímabil í fyrra má búast við meiru frá Keflavík á komandi leiktíð. Hörður Axel verður með frá fyrstu umferð og þá er Gunnars Ólafs snúinn aftur eftir fjögurra ára veru í Nýju Jórvík. Það verður spennandi að sjá hvort Sverrir nái fram því sama og hann hefur gert með kvennalið Keflavíkur síðustu ár en nú með Jón Guðmundsson sér við hlið. Forsendan fyrir góðum árangri Keflavíkur í vetur verður þó að félagið dragi úr kostnaði við flugferðir og verði heppið í útlendingalottóinu á ný.

 

Komnir:

Hörður Axel Vilhjálmsson frá Grikklandi

Milton Jennings frá ToPo í Finnlandi

Gunnar Ólafsson frá St. Francis Brooklyn

 

Farnir:

Ragnar Örn Bragason til Þórs

Jón Arnór Sverrisson til Njarðvíkur

Daði Lár Jónsson

 

 

#4: KR

 

Eftir fimm Íslandsmeistaratitla á síðustu fimm árum teljum við að það sé komið að því að eitthvað annað lið vinni titilinn þetta árið. Miklar breytingar hafa orðið bæði á leikmannahóp og þjálfarateymi liðsins frá því þeir unnu síðasta vor. Ekki það, liðið er ennþá algjört topplið og gætu vel komið okkur á óvart í vetur. Spurningamerkin hinsvegar aðeins stærri en hafa verið undanfarin ár. Ætlar Pavel að spila áfram í Vesturbænum? Að hvaða leyti mun Geitin geta beitt sér? Geta einhverjir leikmenn fyllt skörð þeirra Darra, Brynjars og Kristófers hjá liðinu? Þó höfum við mikla trú á að bæði Emil og Ingi Þór muni gera vel hjá þeim í vetur. Hvernig þetta verður hjá þeim erum við þó ekki vissir með. KR verður án efa eitt áhugaverðasta liðið að fylgjast með í upphafi móts.

 

Komnir:

Emil Barja frá Haukum

Dino Sticic frá KK Skrljevo í Króatíu

Ingi Þór Steinþórsson frá Snæfell (þjálfari)

Julian Boyd frá London Lightning

 

Farnir:

Darri Hilmarsson til Svíþjóðar

Marcus Walker hættur

Kendall Pollard óljóst

Helgi Már Magnússon hættur

Arnór Hermannsson til Breiðablik

Brynjar Þór Björnsson til Tindastóls

Kristófer Acox til Denain

 

 

#5: ÍR

 

Öskubuskuævintýri síðustu leiktíðar gæti haldið áfram á komandi leiktíð. Liðið hefur hinsvegar misst stóra pósta úr liðinu í þeim Svenna, Kidda Mar og Danero. Það þýðir að ungu leikmennirnir sem hafa verið að stíga inn síðustu misseri þurfa að taka enn meiri ábyrgð. Miðað við uppganginn síðustu ár er vel hægt að sjá það gerast en erfitt er að spá ÍR ofar í þessaru ótímabæru spá.

 

Komnir:

Sigvaldi Eggertsson frá Fjölni

Mladen Pavlovic frá KK Metalac

 

Farnir:

Sveinbjörn Claessen hættur

Danero Thomas til Tindastóls

Kristinn Marínósson til Hauka

Ryan Taylor

 

 

#6: Njarðvík

 

Lið Njarðvíkur verður líkt og síðustu ár, líklegt til allskyns sigra í upphafi móts. Með virkilega góðan kjarna íslenskra leikmanna, áður þekktar stærðir að utan og færan þjálfara getur vel verið að liðið taki á rás um leið og mótið hefst. Að fyrrum þjálfara liðsins algjörlega ólöstuðum, höldum við að þessi ráðning Einars aftur heim í Njarðvík ætti eftir að geta orðið sú besta sem lið gerði á þessu ári. Kominn heim eftir víking síðustu ár í Þorlákshöfn, þar sem hann gerði (fyrir utan síðasta tímabil) oftar en ekki betur en nokkur gat vonað með (umdeilanlega) verri hópa en hann er nú með hjá Njarðvík. Þetta er þó eitthvað sem við eigum eftir að sjá gerast. Þangað til eru þeir sjötta besta lið landsins fyrir okkur.

 

Komnir:

Ólafur Helgi Jónsson frá Þórs

Einar Árni Jóhannsson frá Þórs (þjálfari)

Jón Arnór Sverrisson frá Hamri

Jeb Ivey frá Finnlandi

Gerald Robinson

Mario Matasovic frá Sacred Heart College

 

 

Farnir:

Vilhjálmur Theodór Jónsson til Fjölnis

Oddur Rúnar Kristjánsson til Vals

Ragnar Natanaelsson til Vals

 

 

#7: Grindavík

 

Allt byrjunarliðið frá síðustu leiktíð fyrir utan Óla Óla farið frá Grindavík og var staðan ansi svört á tímabili hjá liðinu í sumar. Hvalreki varð hinsvegar í Grindavíkurhöfn er Sigtryggur Arnar kom með seinni skipunum. Við það leit liðið mun betur út og verður fróðlegt að sjá hvort Grindavík geti rifið sig upp á ný eftir vonbrigði síðasta tímabils.

 

Komnir:

Sigtryggur Arnar Björnsson frá Tindastól

Hlynur Hreinsson frá FSu

Nökkvi Harðarson frá Vestra

 

Farnir:

Ingvi Þór Guðmundsson til USA

Dagur Kár Jónsson til Stjörnunnar

Ómar Örn Sævarsson hættur

Þorsteinn Finnbogason

J’Nathan Bullock

Sigurður Gunnar Þorsteinsson

 

 

#8: Haukar

 

Deildarmeistarar síðasta árs eiga eftir að lenda all hressilega þetta tímabilið. Voru oft á tíðum frábærir í fyrra, en missa mögulega of mikið af gæðum fyrir þetta tímabil til þess við höfum trú á því þeir nái að halda slíkri spilamennsku áfram. Finnur farinn til Ungverjalands, Breki til Bandaríkjanna og Emil í KR. Stóra spurningin er kannski hvað þeirra besti leikmaður frá því í fyrra, Kári Jónsson, gerir, en enn virðist ekkert ljóst í þeim efnum. Verði hann með eru þeir allt eins líklegir til að vinna fleiri leiki en þeir tapa, fari hann út getum við ekki lofað því. Gaman verður að sjá hvað Hilmar Smári gerir fyrir liðið í vetur, en hann er einn allra efnilegasti leikmaður landsins og ætti að vera kominn á aldur til að skila sínu í efstu deild.

 

Komnir:

Kristinn Marínósson til Hauka

Hilmar Smári Henningsson frá Þór Ak

Matic Macek frá Lasko í Slóveníu

 

 

Farnir:

Breki Gylfason til Appalachian State USA

Finnur Atli Magnússon til Ungverjalands

Hilmar Pétursson til Breiðabliks

Emil Barja til KR

Paul Anthony Jones

 

 

#9: Valur

 

Félag sr. Friðriks hélt kjarnanum frá síðustu leiktíð og hafa bætt við við sterkum Íslenskum leikmönnum í Oddi og Ragga Nat. Kanaskipti urðu hinsvegar þar sem Urald King samdi við Tindastól. Valsarar verða því líklega nær úrslitakeppni á næsta tímabili en á því síðasta. Deildin er þó líklega sterkari en í fyrra svo Valsarar mega ekkert gefa eftir vinnusemi síðustu leiktíðar.

 

Komnir:

Ragnar Nathanaelsson frá Njarðvík

Oddur Rúnar Kristjánsson frá Njarðvík

Miles Wright frá Dartmouth

 

Farnir:

Urald King til Tindastóls

 

 

#10: Þór

 

Mörg spurningamerki í kringum Þórsliðið fyrir þetta komandi tímabil. Kannski sú stærsta hvernig nýjum þjálfara liðsins, Baldri Ragnarssyni, mun ganga að setja leik sinna manna saman. Er með marga mjög fína íslenska leikmenn í hóp sínum og nokkra erlenda, sem við vitum hreinlega ekki nóg um hvernig eigi eftir að standa sig í Dominos deildinni. Kannski þessvegna sem þeir fá þetta tíunda sæti í þessari kraftröðun.

 

 

Komnir:

Ragnar Örn Bragason frá Keflavík

Nick Tomsick frá Króatíu

Joe Tagarelli frá Solent Kestrels áa Englandi

Gintautas Matulis frá BC Nev?žis í Litháen

 

 

Farnir:

Dj Balentine óljóst

Chaz Willliams óljóst

Snorri Hrafnkelsson til Breiðablik

Ólafur Helgi Jónsson til Njarðvíkur

 

 

#11: Skallagrímur

Nýliðarnir unnu 1. deildina nokkuð sannfærandi á síðustu leiktíð og ætla sér stóra hluti í Dominos deildinni á ný. Borgnesingar hafa samið við spennandi erlenda leikmenn auk þess sem Ríkharðssynir munu tvímælalaust styrka liðið. Ungir leikmenn eru eldri og þroskaðri en þegar liðið var síðasta í efstu deild og verður því fróðlegt að fylgjast með Borgnesingum. Liðið þarf þó líklega að styrkja sig meira til að komast í úrslitakeppnina.

 

Komnir:

Björgvin Hafþór Ríkharðsson frá Tindastól

Bergþór Ægir Ríkharðsson frá Hetti

Davíð Ásgeirsson byrjaður aftur

Aundre Jackson frá Loyola-Chicago

Matej Buovac frá KK Zagreb í Króatíu

 

Farnir:

Darrell Flake til Snæfells

 

 

#12: Breiðablik

 

Ef að síðustu ár hafa kennt okkur eitthvað. Þá er það að munur Dominos og 1. deildar er gríðarlegur. Breiðablik hefur gert vel með að ráða þjálfara í Ingvari og ná í nokkra spennandi leikmenn í Hilmari, Snorra, Arnóri og Bjarna. Okkur skortir þó enn þá trú til að halda, eins og staðan er núna, að þetta verði neitt annað en beinasta leið niður aftur.

 

Komnir:

Snorri Hrafnkelsson frá Þór Þ

Pétur Ingvarsson frá Hamri (þjálfari)

Arnór Hermannsson frá KR

Hilmar Pétursson frá Haukum

Bjarni Geir Gunnarsson frá Stjörnunni

 

 

Farnir:

Enginn

 

 

Fréttir
- Auglýsing -