Mánaðarlega mun Karfan birta kraftröðun á komandi tímabili. Þar er ekki aðeins tekin til staða liðanna í deildinni, heldur einnig breytingar á leikmannahópum og það gengi, eða sú sveifla sem liðið er í á hverri stundu.
Nú þegar styttast fer í undirbúnings tímabil flestra liða eru leikmannahópar liðanna að skýrast. Enn er margt óljóst en leikmannamarkaður sumarsins hefur verið ansi tíðindamikill.
Því er við hæfi að hefja tímabilið 2018-2019 á verulega ótímabærri kraftröðun. Þar er rýnt í stöðu liðanna á þessu tímabili og reynt að spá fyrir um möguleika þeirra. Tekið skal fram að röðunin er til gamans gerð enda ekki allt vatn runnið til sjávar og því líklegt að röðin muni sveiflast mikið í næstu kraftröðun.
Örvarnar munu á næsta lista merkja færslu liða á milli mánaða en í þetta sinn eru þær miðaðar við endanlega stöðu liðs í deildarkeppninni á síðasta tímabili.
Listinn var ræddur í síðasta Podcasti Körfunnar, en það er aðgengilegt hér.
#1: Keflavík
Nýr þjálfari er tekinn við bikarmeisturum Keflavíkur af Sverri Þór Sverrissyni sem hefur stýrt liðinu tvö frábær tímabil. Besti leikmaður liðsins, Thelma Dís er farin til Bandaríkjanna sem er mikill skellur fyrir Keflvíkinga. Hinsvegar er liðið að fá inn þrjá leikmenn sem hafa sýnt sig í efstu deild og þar af Bryndísi Guðmundsdóttir sem var í úrvalsliði ársins fjögur ár í röð 2012-2016. Verða án efa eitt af sterkustu liðum deildarinnar í vetur og verður spennandi að fylgjast með þeim.
Komnar:
Jón Guðmundsson (þjálfari)
Bryndís Guðmundsdóttir frá Snæfell (úr barneignar-leyfi)
María Jónsdóttir frá Njarðvík
Telma Lind Ásgeirsdóttir frá Breiðablik
Farnar:
Thelma Dís Ágústsdóttir til Ball State University (USA)
Sverrir Þór Sverrisson (þjálfari)
#2:Valur
Valur var svo sannarlega það lið sem að stóð sig hvað best á síðasta tímabili. Eftir að hafa ekki gert tilkall til titla í nokkurn tíma voru þær til alls líklegar í fyrra. Fara meðal annars alla leið í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Afhverju gerum við ekki ráð fyrir þeim sterkari þetta árið? Hver segir að við gerum það ekki. Missa reyndar helling í Elínu Sóleyju, sem farin er til Bandaríkjanna, en fyrir utan það, sjáum við ekkert því til fyrirstöðu en að þær geri atlögu að öllum titlum sem í boði eru á næsta tímabili.
Komnar:
Marín Matthildur Jónsdóttir
Farnar:
Elín Sóley Hrafnkelsdóttir til Tulsa (USA)
#3: Stjarnan
Stjarnan mætir með sterkara lið til leiks en í fyrra. Liðið virðist hafa haldið í kjarnann frá síðustu leiktíð og bæta við sterkum leikmönnum. Stærsti galli Stjörnunnar á síðustu leiktíð var skortur á breidd en það lítur betur út fyrir komandi leiktíð. Leikmannahópurinn er sterkur eins og staðan er núna en spurningamerkið er landsliðskonan Ragna Margrét Brynjarsdóttir. Stjarnan þarf að halda henni, hún þarf að sleppa við meiðsli og þá er Stjarnan til alls líklegt.
Komnar:
Auður Íris Ólafsdóttir frá Breiðablik
Jóhann Björk Sveinsdóttir frá Skallagrím
Sólrún Sæmundsdóttir frá Skallagrím
Farnar:
Bryndís Hanna Hreinsdóttir til Breiðabliks
#4: Snæfell
Eftir tvö misjöfn ár (miðað við þau þrjú á undan sem liðið vann Íslandsmeistaratitilinn) virðist allt vera komið af stað aftur í Stykkishólmi. Missa reyndar Inga Þór Steinþórsson aftur í Vesturbæinn, en það er okkar mat að liðið eigi samt eftir að rétta úr kútnum með fyrrum aðstoðarþjálfara liðsins Baldur Þorleifsson í brúnni. Fá Gunnhildi væntanlega heilt tímabil núna, með Kristen og Berglindi sem og eru sem stendur eina liðið sem búið er að tilkynna evrópskan leikmann (Katarina Matijosie) fyrir tímabilið.
Komnar:
Baldur Þorleifsson (þjálfari)
Heiða Hlín Björnsdóttir frá Þór Ak
Katarina Matijosie frá Króatíu
Farnar:
Ingi Þór Steinþórsson til KR (þjálfari)
#5: Haukar
Íslandsmeistararnir ganga í gegnum miklar breytingar í sumar. Liðið missti auðvitað besta leikmann efstu deildar á Íslandi síðustu ár í Helenu Sverrisdóttur. Auk þess urðu þjálfaraskipti er Ólöf Helga tók við liðinu. Haukar og Ólöf endurnýja kynni sín við Lele Hardy sem er einhver besti erlendi leikmaður sem spilað hefur á Íslandi. Einnig hafa yngri leikmenn skipt um lið. Eins og staðan er núna er því erfitt að sjá Hauka leika eftir frábært tímabil í fyrra.
Komnar:
Lele Hardy frá Tapiolan Honka (Finnland)
Ólöf Helga Pálsdóttir frá Grindavík (þjálfari)
Farnar:
Helena Sverrisdóttir til Cegled, Ungverjalandi
Ingvar Þór Guðjónsson (þjálfari)
Ragnheiður Björk Einarsdóttir til Breiðabliks
Þórdís Jóna Kristjánsdóttir til Breiðabliks
#6: Breiðablik
Líkt og kemur fram í komnar/farnar dálkunum hér fyrir neðan þá eru breytingar á leikmannahóp og þjálfarateymi Breiðabliks einhverjar fyrir komandi tímabil. Fá inn nýjan þjálfara í Margréti, en bæði hefur hún verið í kringum félagið síðustu misseri, sem og þjálfað á flestum stöðum boltans á síðustu árum/áratugum. Áhyggjurnar líklega ekki af því hvort sú breyting eigi eftir að hafa neitt annað en góð áhrif á liðið. Frekar eru þær kannski hversu ungur meðalaldur liðsins er. Þurfum pínulítið að sjá hvernig þetta á eftir að ganga áður en við trúum því að það sé að gerast. Ekki það, höfum allt eins trú á því.
Komnar:
Margrét Sturlaugsdóttir (þjálfari)
Björk Gunnarsdóttir frá Njarðvík
Erna Freydís Traustadóttir frá Njarðvík
Bryndís Hanna Hreinsdóttir frá Stjörnunni
Hulda Ósk Bergsteinsdóttir frá Njarðvík
Ragnheiður Björk Einarsdóttir frá Haukum
Þórdís Jóna Kristjánsdóttir frá Haukum
Farnar:
Hildur Sigurðardóttir (þjálfari)
Telma Lind Ásgeirsdóttir til Keflavíkur
Auður Íris Ólafsdóttir til Stjörnunnar
Lovísa Falsdóttir í barneignarleyfi
Kristín Rós Sigurðardóttir í ÍR
Whitney Kiera Knight óljóst
#7: Skallagrímur
Það er útlit fyrir langan vetur í Borgarnesi. Frá leikmannahópnum sem komst í bikarúrslit fyrir tveimur árum eru einungis þrír leikmenn eftir sem léku meira en 10 mínútur. Ari Gunn gerði frábæra hluti að koma liðinu í úrslitakeppni í fyrra en liðinu skortir aðfinnanlega breidd og gæði í hópinn. Að því sögðu skal tekið fram að einn besti leikmaður deildarinnar síðustu ár, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir er enn í liðinu sem gæti verið nóg til að draga liðið frá botninum en ekki mikið meir. Borgnesingar verða einfaldlega að bæta í hópinn og gætu þurft að líta til Evrópu í leit sinni.
Komnar:
Karen Dögg Vilhjálmsdóttur frá Njarðvík
Bryeasha Blair frá South Carolina State
Farnar:
Jóhanna Björk Sveinsdóttir til Stjörnunnar
Carmen Tyson-Thomas til Ástralíu
Sólrún Sæmundsdóttir til Stjörnunnar
Fanney Lind Thomas hætt
#8: KR
Höldum við að lið KR eigi eftir að enda á áttunda sæti? Ekkert endilega. Eru þær með áttunda sterkasta liðið á þessari stundu að okkar mati? Já. Nokkurn vegin útskýrir dálkurinn hér fyrir neðan afhverju KR er lægst í þessari ótímabæru kraftröðun okkar. Þær hafa ekki bætt neinu við. Vissulega fóru þær taplausar í gegnum fyrstu deildina, en það var með virkilega færum erlendum leikmanni. Þá er líka hægt að benda á gífurlegan getumun deildanna tveggja. Við höfum engar áhyggjur af því að KR eigi ekki eftir að hlaða fréttatilkynningabyssuna, eru bara of seinar fyrir þetta ótímabæra mat.
Komnar:
Engin
Farnar:
Gunnhildur Bára Atladóttir erlendis
Alexandra Petersen til Fjölnis