Ísfirðingar fá heldur betur gleðitíðindi rétt fyrir verslunarmannahelgi því Nebojsa Knezevic skrifaði undir þriggja ára samning við Vestra í gær. Þetta tilkynnti félagið í morgun.
Í tilkynningu Vestra segir: „Það þarf ekki að fjölyrða um hæfileika Nebojsa á körfuboltavellinum. Hann er fagmaður fram í fingurgóma og hefur verið meðal bestu leikmanna 1. deildarinnar undanfarin ár. Á síðasta tímabili var Nebojsa frábær enda raðaði hann sér í efstu sæti í öllum í helstu tölfræðiþáttum leiksins. Hann var stoðsendingakóngur deilarinnar með 7,3 stoðsendingar að meðal tali í leik, skoraði 23,7 stig og tók 7,3 fráköst sem útleggst í 26,9 framlagspunkta. Framlag hans utan vallar er þó ekki síður mikilvægt hvort sem það er á sviði þjálfunar eða í öðru félagsstarfi deildarinnar.“
„Það er mikið ánægjuefni fyrir Vestra að tryggja sér starfskrafta Nebojsa næstu þrjú árin, að minnsta kosti, og hlakkar stjórn Körfuknattleiksdeildarinnar til áframhaldandi samstarfs við hann“.
Ljóst er að einhverjar breytingar verða á liði Vestra á komandi leiktíð. Vestri þarf að sjá á eftir þremur lykilleikmönnum síðasta timabils en þeir Adam Smári Ólafsson, Björn Ásgeir Ásgeirsson og fyrirliðinn Nökkvi Harðarson hafa allir ákveðið að söðla um. Aftur á móti hafa þeir Ingimar Aron Baldursson og Nemanja Knezevic endurnýjað samninga sína við liðið.