spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaStjarnan á toppnum eftir stórsigur á Haukum

Stjarnan á toppnum eftir stórsigur á Haukum

Haukar tóku í kvöld á móti Stjörnumönnum í tíundu umferð Domino’s deildar karla. Fyrir leikinn höfðu Haukar ekki tapað leik í nýju íþróttahúsi sínu, Ólafssal, en Stjörnumenn gátu komið sér fyrir við hlið Keflvíkinga á toppi deildarinnar. Leikur kvöldsins var þó fjarri því að vera spennandi. Eftir frábæra byrjun Hauka höfðu heimamenn ellefu stiga forystu að loknum fyrsta leikhluta, 33-22, en þar við sat fyrir Hafnfirðinga. Stjörnumenn spóluðu einfaldlega fram úr heimamönnum í öðrum leikhluta og sneru leiknum sér í vil með stórkostlegum öðrum leikhluta, bæði í vörn og sókn. Stjarnan vann annan leikhlutann 35-12, og eftir það var aldrei spurning hvorum meginn sigurinn myndi enda. Eftir frekar tíðindalítinn seinni hálfleik lauk leik með öruggum 20 stiga sigri Stjörnunnar, 106-86.

Hvers vegna vann Stjarnan?

Stjörnumenn byggðu sigurinn á afskaplega sterkum öðrum leikhluta, þar sem þeir lokuðu vörninni og skoruðu körfur í öllum regnbogans litum. Haukar virtust einfaldlega slegnir og vissu ekki sitt rjúkandi ráð gegn gestunum. Sérstaklega ber að nefna Kyle Johnson sem tók leikinn einfaldlega yfir í öðrum leikhluta, og skoraði að því er virtist að vild. Eftir sterkan annan leikhluta var einfaldlega aldrei spurning hvar sigurinn myndi enda, og Stjörnumenn vel að sigrinum komnir.

Bestur

Kyle Johnson fór fyrir gestunum í kvöld og var einfaldlega óstöðvandi á tímabili. Kyle lauk leik með 30 stig með 58% skotnýtingu og bætti við 6 fráköstum.

Framhaldið

Eftir leiki kvöldsins eru Stjörnumenn komnir á topp Domino’s deildarinnar, en það varð ljóst eftir tap Keflvíkinga gegn Þór Þorlákshöfn, en Haukar sitja nú í sjöunda sæti. Næsti leikur Stjörnunnar er gegn Fjölni í Mathús Garðabæjar höllinni, fimmtudaginn 19. desember, en Haukar mæta Val degi fyrr í Origo-höllinni að Hlíðarenda.

Fréttir
- Auglýsing -