spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaGunnlaugur: Vorum sjálfum okkar verstar.

Gunnlaugur: Vorum sjálfum okkar verstar.

Gunnlaugur Smárason, þjálfari Snæfells, var niðurlútur eftir slakan leik sinna stúlkna gegn Haukum í kvöld. Hólmarar töpuðu 101-81 fyrir Haukastelpum.

„Fjórði var bara eins og fyrsti, hættum að spila vörn og vorum kærulausar,“ sagði Gulli um helstu ástæðu þess að liðið tapaði í kvöld. Þau byrjuðu leikinn illa og eftir að hafa klórað sig til baka úr erfiðri stöðu enduðu þær leikinn illa sömuleiðis. Fyrsti og fjórði leikhlutinn töpuðust samtals með 29 stigum. „Við vorum sjálfum okkar verstar og eiginlega bara bestu vinir Hauka,“ sagði hann.

Gunnlaugur talaði um að Snæfellsstúlkur létu stjórna sér allt of stóran hluta leiksins og að þær hafi t.a.m. leyft Haukum að yfirdekka skotmenn Hólmarar um of. „Svo þarf að koma boltanum meira inn í teig, augljóst,“ sagði hann, enda áttu Haukar í miklum erfiðleikum með að verjast gegn Emese Vida, miðherja Snæfells.

„Í þriðja leikhluta stjórnuðum við leiknum en þær stjórnuðu okkur í fyrsta og fjórða. Það sést alveg að okkur vantar smá öryggi á gólfið,“ sagði Gunnlaugur, enda tapaði Snæfell 22 boltum í leiknum. „Við verðum að finna meira öryggi, KR mun líklega pressa okkur eins og önnur lið hafa gert,“ sagði hann um næsta leik Hólmara gegn KR-ingum í Frostaskjóli.

Snæfell hefur verið án bandarísks leikmanns í undanförnum leikjum og Gunnlaugur segir að verið sé að vinna í því að fá nýjan leikmann að utan fyrir seinni hluta tímabilsins. Chandler Smith, fyrrum leikmaður Snæfells, yfirgaf liðið fyrir skemmstu en Gulla finnst þó ekki að liðið hafi spilað verr án hennar, þvert á móti. Haukaleikurinn hafi þó ekki verið ásættanlegur „Síðustu leikir okkar hafa verið mjög fínir, nokkrir góðir deildarleikir og góð frammistaða í bikarkeppninni, en þessi leikur var alveg 2-3 skref aftur á bak.“

Einn af leikmönnum Gunnlaugs hefur verið vaxandi undanfarið og var m.a. með bestu plús/mínus-tölfræðina hjá sínu liði í kvöld. Hún heitir Tinna Alexandersdóttir og sýndi flotta takta þegar Snæfell tók áhlaup sitt í þriðja leikhlutanum. Það kom Gunnlaugi ekki mjög mikið á óvart. „Tinna er eitt mesta efni í hennar árgangi á landinu, er aðeins 17 ára. Hún nennir að spila vörn og er tæknilega mjög góð. Búin að nýta tækifærin sín vel á tímabilinu. Mikið efni.“

Um orsök tapsins sagði Gulli: „Þetta er bara blanda af fullt af hlutum, en við vorum bara ‘soft’ í flestum þáttum í kvöld. Okkur vantaði leiðtoga á völlinn, erfitt þegar Gunnhildur er á 20%. Hún hefur verið að berja okkur áfram en það hlaut að koma að því að það hægðist aðeins á henni eftir álagið undanfarið.“

Leikjaálag er ekki að fara vel í marga leikmenn og það sást á Gunnhildi Gunnarsdóttur, fyrirliða Snæfells, í kvöld. „Já, Gunnhildur er eiginlega í tómu tjóni líkamlega í leiknum,“ segir Gunnlaugur og getur vart beðið eftir jólafríinu eftir næsta leik. „Jólafríið verður tekið í rólegheitum á Helgafelli og í að þjappa hópnum saman,“ sagði Gunnlaugur áður en hann hélt inn í klefa með stelpunum sínum.

Fréttir
- Auglýsing -