Stjarnan vann mjög öruggan sigur á KR fyrr í kvöld í Dominos deild karla. Lokastaðan 110-67 fyrir Stjörnunni.
Ingi Þór þjálfari KR var auðvitað ekkert sérstaklega hress að leik loknum en gaf fúslega færi á viðtali enda fagmaður:
Þið fóruð til Keflavíkur og unnuð þar geggjaðan og mikilvægan sigur….?
Jájá…mikið rétt…baráttusigur…
…mér fannst þið hafa sett þá línu þar að þið ætluðuð að sýna og sanna að þið væruð enn besta liðið. Svo tapið þið fyrir Njarðvík heima svo ég sá fyrir mér svipaðan leik hér í kvöld hjá ykkur og í Keflavík með það sama í huga… að sanna það enn og aftur að þið væruð bestir…en það gekk aldeilis ekki…
Það var vissulega planið! Það er að sjálfsögðu planið að vinna alltaf og við ætluðum að nálgast þennan leik með mikilli orku, djöflast og vera alveg brjálaðir hérna. Við gerum það ekki, erum ekki að gera það sem lið. Þeir réðust á okkur og náðu að opna okkur allsvakalega og gerðu bara það sem þeir vildu. En við náðum að snúa þessu við og mér fannst við vera á leið með að taka leikinn yfir…
…já…þarna í byrjun seinni hálfleiks?
…já við náðum þessu niður í 6 stig en við gerum nokkur lítil mistök, töpum 1-2 boltum og við það bara springur blaðran, því miður.
Já, Stjörnumenn svöruðu vel með 2-3 þristum þegar þið náðuð þessu niður í sex…og ég man nú bara ekki eftir því að hafa séð það áður hjá KR-liðinu en það er eins og liðið hafi bara brotnað…
…þetta var bara alveg skelfilegt…og við höfðum engin svör.
Nú er ég ekki helsti leikgreinandi landsins en ég man eiginlega ekki eftir því að sjá neitt lið spila einn á einn-vörn á Craion, það er hugsanlega bara Stjarnan sem hefur gert það nú sem áður…
…Já þeir gerðu það og gerðu það mjög vel og það virkaði…þeir lokuðu á aðra og leyfðu honum að spreyta sig og hann skilaði 18 stigum í hálfleik…Það var snjallt hjá þeim og leikplanið þeirra gekk fullkomlega upp og þeir spiluðu frábæran leik. Þeir voru án Bandaríkjamanns og menn eflast gjarnan við það en að sama skapi þá nýtum við okkur það ekki á einn einasta hátt, því miður.
Jájá, þið hittuð svo líka hræðilega illa, Matti endar með 2 stig, næststigahæsti maðurinn er með 10 stig…
Þó þú sért með besta kerfi í heimi og besta lið í heimi þá dugir það ekki ef liðið hittir ekki neitt. Ef þú ert að spila á móti hröðu liði og ert ekki tilbúinn í hraðann þá helduru mönnum ekki fyrir framan þig, það er nákvæmlega það sem gerðist hérna í kvöld, við vorum ekki klárir í það að halda mönnum fyrir framan okkur og réðum ekki við hraðann sem þeir settu í gang. Og aftur vil ég bara hrósa Stjörnumönnum, þeir framkvæmdu sitt gríðarlega vel í þessum leik.
Kemur til greina að bæta bosman-leikmanni við hópinn?
Við erum ekkert að spá í því. Ég held að það lagi ekkert að bæta bosman-leikmanni við eitthvað sem virkar ekki, það lagar ekkert. Það er ekki svarið og ekki hægt að gera það fyrr en eftir áramót. Við eigum stóra leiki framundan, 3 leiki fyrir áramót og við verðum bara að gjöra svo vel og standa okkur.
Jájá akkúrat. KR endaði í 5. sæti á síðasta tímabili og urðu meistarar – liðið er nú fyrir ofan það enn svo kannski er ástæðulaust að örvænta…
Við erum bara ekki að spila vel og það er okkar að leysa úr því. Við þurfum bara að standa saman og laga þetta innanfrá, þetta er bara eitthvað sem við þurfum að díla við og leysa.
Viðtal: Kári Viðarsson