Íslandsmeistarar Vals lögðu nýliða Grindavíkur í dag í lokaleik áttundu umferðar Dominos deildar kvenna, 77-70.
Eftir leikinn er Valur sem áður í efsta sæti deildarinnar, með sigur í öllum leikjum það sem af er. Grindavík er einnig áfram á sama stað í töflunni, í sjöunda sætinu og leita enn að sínum fyrsta sigurleik.
Það voru Valskonur sem byrjuðu leik dagsins betur. Leiddu eftir fyrsta leikhluta með níu stigum, 29-20. Undir lok fyrri hálfleiksins jafnaðist leikurinn aðeins, en Valur þó enn með gott forskot þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik, 43-33.
Í upphafi seinni hálfleiksins bættu Íslandsmeistararnir svo enn í. Komu muninum upp í sautján stig fyrir lokaleikhlutann, 66-49. Í honum gerði Grindavík þó vel í að vinna þennan mun niður. Náðu því þó ekki alveg og að lokum sigraði Valur með sjö stigum, 77-70.
Atkvæðamest fyrir Val í leiknum var Kiana Johnson með laglega þrennu, 24 stig, 11 fráköst og 10 stoðsendingar. Fyrir gestina var það Hrund Skúladóttir sem dróg vagninn með 19 stigum, 10 fráköstum og 6 stoðsendingum.