spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÍR sótti sigur til Þorlákshafnar

ÍR sótti sigur til Þorlákshafnar

Þórsarar tóku á móti ÍR í Þórlákshöfn í 8. umferð Domino’s deildar karla. Það var þokkalega mætt í stúkuna og gaman að sjá stuðningsmenn ÍR leggja leið sína suður. Leikurinn var í járnum í fyrri hálfleiknum og munurinn fór aldrei yfir sex stig í hálfleiknum.

Munurinn á liðunum var eitt stig þegar lokafjórðungurinn hófst og eitt stig þegar fimm mínútur lifðu leiks. ÍR gerði svakalega vel á lokamínútunum en lokatölurnar gefa ekki alveg rétta mynd af leiknum. Þórsarar reyndu ótímabær skot í restina og ÍR svöruðu með góðum körfum. Annar útisigur ÍR í vetur og báðir hafa komið gegn Þór.

Gangur leiks:
Í fyrsta leikhluta voru það þristarnir sem duttu ÍR megin en Þórsarar skoruðu sín stig inn í teig. Danero Thomas var með fullt skotleyfi hjá gestunum og tók fimm þrigja stiga skot í fyrsta fjórðungi, þrjú þeirra fóru ofan í. Halldór Garðar og Marko skoruðu fyrstu 22 stig Þórsara.

Halldór Garðar og Marko voru með sýningu hjá Þórsurum og skoruðu 35 af 40 stigum Þórsara í fyrri hálfleik (31 af fyrstu 34). Ragnar sá um hin 5 stigin sem upp á vantaði. Danero skilaði 11 stigum í fyrri og þeir Evan og Georgi 9 hvor. ÍR-ingar settu sex þrista ofan í gegn einungis tveimur hjá heimamönnum sem skoruðu hins vegar tíu stig gegn engu úr hraðaupphlaupum. Mesti munur á liðunum var sex stig en Þórsarar leiddu með tveimur þegar gengið var til búningsherbergja.

Næstu fimmtán leikmínútur einkenndust af mikill spennu. Leikurinn var gífurlega jafn en framlagið enn of mikið í höndum Halldórs hjá Þórsurum og það hægðist mikið á Marko. Dino setti tvo þrista í upphafi lokafjórðungsins en annars var takmarkað framlag annarra leikmanna, sóknarlega í það minnsta. ÍR-ingar settu stór skot niður með Georgi og Evan í broddi fylkingar, Danero setti þá góð stig í restina.

Vendipunkturinn:
Þegar rétt tæpar átta mínútur lifðu leiks setur Dino seinni þristinn sinn ofan í og skorar 65. stig Þórsara. Næstu tvö stig liðsins skorar Halldór Garðar þegar tæpar tvær mínútur eru eftir. Þórsarar skoruðu ekki eftir það, því aðeins tvö stig skoruð á tæpum átta mínútum.

Hetjan: Georgi Boyanov
Georgi var flottur hjá ÍR-ingum í kvöld. Hann var stigahæsti maður liðsins með 26 stig. Hann tók auk þess 12 fráköst og var 11 af 16 af gólfinu. Hann skilaði alls 36 framlagspunktum.

Tölfræðin lýgur ekki:
Þegar Arnór, Sæþór, Evan, Georgi og Danero voru saman inn á vann ÍR leikinn með tuttugu stigum.

Lykilmenn fjarverandi:
Hjá Þórsurum vantaði Vincent Bailey sem lék ekki í kvöld. Hjá ÍR er Sigurður Þorsteinsson frá út tímabilið og Collin Pryor var ekki með gestunum. Þá tók Daði Berg út lokaleikinn í leikbanni sínu.

Sveinbjörn tók skóna af hillunni:
Sveinbjörn Claessen lék sinn annan leik á tímabilinu en hann lagði skóna á hilluna vorið 2018. Sveinbjörn skilaði sterkum fjórum mínútum í kvöld. Viðtalið við hann, eftir leik, er eitthvað sem enginn má missa af enda með eindæmum skemmtilegur viðmælandi.

Halldór og Marko fóru mikinn í fyrri hálfleik:
Halldór Garðar (31 stig alls) og Marko (20 stig alls)voru allt í öllu í sóknarleik Þórsarar í fyrri hálfleik og skoruðu 35 af 40 stigum liðsins í hálfleiknum. Marko var með 16 stig og 9 fráköst í hálfleik og Halldór Garðar skilaði niður 19 stigum, gaf 3 stoðsendingar og stal tveimur boltum.

Misslukkuð troðsla vakti lukku:
Georgi fékk opna troðslu í öðrum leikhluta en tókst einhvern veginn að setja boltann ekki ofan í. Þetta vakti mikla lukku í stúkunni hjá stuðningsmönnum heimaliðsins.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -