Ísland hóf leik í undankeppni EuroBasket kvenna 2021 í kvöld, en liðið mætti þá Búlgaríu í Laugardalshöll. Skemmst er frá því að segja að þær búlgörsku réðu lögum og lofum á vellinum allt kvöldið, og lauk leiknum með afar öruggum 15 stiga sigri gestanna, 69-84.
Búlgarir settu tóninn strax í upphafi og komust í 13-3 eftir rúmar þrjár mínútur. Eftir leikhlé hjá íslenska liðinu lagaðist staðan aðeins fyrir lok fyrsta leikhluta, og skipti þar einkum sköpum góð innkoma Sylvíu Rúnar Hálfdanardóttur, sem kom inn eins og ferskur andblær í íslenska liðið, sem hafði verið frekar þungt fram að því. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 15-19, gestunum í vil, og virtist sterk innkoma Sylvíu hafa kveikt bál innra með íslenska liðinu.
Þær búlgörsku voru hins vegar fljótar að ná yfirhöndinni að nýju, og höfðu tögl og hagldir allan annan fjórðung. Fátt gekk upp hjá íslenska liðinu, hvort sem var í vörn eða sókn, sem sést hvað best í því að í hálfleik var skotnýting Íslands upp á 30,8% í tveggja stiga tilraunum, en 52,6% í sömu tilraunum hjá gestunum. Staðan í hálfleik var 28-40, gestunum í vil, eftir afar erfiðar tíu mínútur hjá íslenska liðinu.
Íslenska liðið kom af miklum krafti inn í seinni hálfleikinn, en það var hins vegar sama hvað á gekk, Búlgarir gátu alltaf svarað með þristi eða auðveldum körfum úr hraðaupphlaupi. Munurinn varð minnstur 7 stig, 42-49, í þriðja leikhluta en eftir það litu gestirnir aldrei um öxl. Lokastaðan eins og áður segir 69-84 í afar erfiðum fyrsta leik undankeppni EuroBasket 2021.
Hvað gekk illa?
Íslenska liðinu gekk einfaldlega bölvanlega að koma boltanum ofan í körfuna stærstan hluta leiks gegn sterkri og snöggri vörn búlgarska liðsins. Leikmenn áttu erfitt með að finna opin skot, og þegar þau fundust rötuðu þau yfirleitt ekki rétta leið. Íslenska liðið hitti til að mynda úr fjórum af 24 þriggja stiga tilraunum sínum í leiknum, sem gerir heil 16,7%, sem er ekki líklegt til árangurs.
Best
Sylvía Rún Hálfdanardóttir kom afar sterk inn fyrir íslenska liðið og barðist afar hetjulega á þeim tíma sem hún var inn á. Þó að Sylvía hafi kannski ekki átt sinn besta skotdag (3/12 utan af velli) frekar en margir aðrir leikmenn Íslands, þá lauk hún engu að síður leik með 10 fráköst, 2 stolna bolta og varið skot.
Næsti leikur
Næst heldur íslenska liðið til Grikklands, þar sem þær mæta heimakonum á sunnudag, 17. nóvember.
Myndasafn 1 (Bjarni Antonsson)
Myndasafn 2 (Bjarni Antonsson)
Myndasafn 3 (Guðlaugur Ottesen)
Viðtöl eftir leik:
Umfjöllun: Elías Karl Guðmundsson
Myndir: Bjarni Antonsson
Viðtöl: Ólafur Þór Jónsson