Njarðvíkingar héldu sex stiga forskoti sínu á Grindavík í kvöld í baráttunni um síðasta sætið í úrslitakeppni Subwaydeildar kvenna. Njarðvík lagði þá Fjölni naumlega 80-73 í Ljónagryfjunni. Gestirnir úr Grafarvogi áttu nokkra góða möguleika á því að komast við stýrið en Njarðvíkingar héldu sjó. Í kvöld léku Fjölniskonur án landsliðskonunnar Danýjar Lísu Davíðsdóttur sem fylgdist með af tréverkinu í borgaralegum klæðum.
Fjörið var allsráðandi í fyrsta leikhluta, opinn leikur og hraður og hittni Njarðvíkinga góð sem leiddu 31-20 eftir fyrsta hluta. Isabella Ósk og Raquel byrjuðu vel hjá Njarðvík en Simone var beitt fyrir Fjölni.
Grafarvogskonur voru mikið í svæðisvörn í kvöld og tókst þeim oft að gera Njarðvíkingum erfitt fyrir. Í öðrum leikhluta fór þriggja stiga skotnýting Njarðvíkinga úr 50% í fyrsta leikhluta niður í 30% í öðrum hluta og Fjölnir minnkaði muninn í 45-38 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Síðari hálfleikur var mjög svipaður þeim fyrr, Fjölnir að gera góðar árásir en ekki alveg að ná að komast upp að hlið Njarðvíkinga. Eftir rólegan fyrri hálfleik lét Aliyah Collier meira að sér kveða í sóknarleik Njarðvíkinga og tryggði reglulega góða forystu meistaranna. Njarðvík leiddi 68-60 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.
Á lokasprettinum kom aldrei nægilega vel saman kýldur stuðkafli hjá Fjölni og því ógnuðu gestirnir forystu Njarðvíkinga ekki nægilega og Njarðvík landaði sigri eins og áður segir 80-73.
Brittany Dinkins var ekki fjarri þrennunni með 24 stig, 12 fráköst og 7 stoðsendingar í liði Fjölnis í kvöld og þá var Simone Sill með 22 stig, 10 fráköst og 5 stoðsendingar. Einnig var gaman að fylgjast með hinum 17 ára gamla miðherja Heiði Karlsdóttur sem oft gerði Njarðvíkingum erfitt fyrir þegar þeir ætluðu sér að sækja upp að körfunni.
Hjá Njarðvíkingum voru fimm leikmenn með 10 stig eða meira í kvöld en atkvæðamest var Aliyah Collier með 20 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar. Næst henni var Lavinia Da Silva með 18 stig og 9 fráköst og Isabella Ósk Sigurðardóttir klukkaði flotta tvennu með 16 stig og 13 fráköst.
Næsti leikur Njarðvíkinga er grannaglíma gegn Keflavík en Fjölniskonur mæta Blikum.