spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÞórsarar sóttu sigur í Grafarvoginn

Þórsarar sóttu sigur í Grafarvoginn


Þór Þ. heimsótti í kvöld Fjölnismenn í Grafarvog. Þórsarar höfðu unnið tvo leiki í deildinni fyrir leik kvöldsins og Fjölnir einn leik. Leikurinn byrjaði ágætlega en svo hægðist á skori og baráttan jókst. Stemningin var ekki mikil í húsinu en hún jókst þegar gestirnir hitnuðu í 2. leikhluta. Bekkur og stuðningsmenn gestana rifu stemninguna upp.

Fjölnismenn náðu áhlaupi í byrjun seinni hálfleiks og kveiktu aðeins á sínum stuðningsmönnum. Þórsarar svöruðu áhlaupinu og þögguðu niður í þeim stuðningi sem hafði myndast. Annað áhlaup kom í lokaleikhlutanum en Þórsarar héldu út og kræktu í sigurinn.

Gangur leiks: 

Fjölnir leiddi með tveimur stigum eftir fyrsta fjórðung og var það að mestu Vincent að þakka að Þór var ekki undir með fleiri stigum. Hann skoraði 10 af fystu 15 stigum liðsins. Fjölnir hóf annan fjórðunginn vel en þegar fimm og hálf mínúta lifðu hans höfðu gestirnir snúið leiknum og leiddu með fimm stigum. Halldór Garðar lék vel þær mínúturnar og skoraði sex stig á þeim kafla. Dino setti niður tvo þrista á þessum kafla og þremur mínútum seinna leiddu gestirnir með tólf stigum, svo í hálfleik með 14 stigum.

Heimamenn skoruðu fyrstu níu stig seinni hálfleiks og leikurinn orðinn jafn á ný. Þórsarar settu þrist niður í þremur af fjórum næstu sóknum sínum gegn aðeins tveimur stigum heimamanna og byggðu upp forskot á ný. Ellefu stiga munur var á liðunum um miðjan þriðja fjórðung og fjórtán stig í lok fjórðungsins. Fjölnismenn léku af ákefð í fjórða fjórðungnum og komu forskotinu minnst niður í þrjú stig þegar tæp mínúta var eftir. Þórsarar náðu að spila sig í gegnum fína pressu Fjölnismanna og skora næstu körfu og tryggja sér sigurinn í kjölfarið.

Vendipunkturinn:

Þegar Þórsarar náðu að spila sig í gegnum pressuvörn Fjölnismanna á lokamínútunni. Þórsarar komu boltanum á Vincent sem lagði hann á Marko sem kláraði og innsiglaði þar með sigurinn.

Hetjan: Marko Bakovic (Þór Þ.)

Marko er hetja leiksins enda setti hann niður fjögur af fimm síðustu stigum leiksins. Fyrst kom hann gestunum í 88-83 og eftir klúðrað skot Fjölnismanna var brotið á Marko sem setti bæði vítaskotin niður og ísaði leikinn. Marko var hæstur í framlagi hjá Þór, 23 í framlag. 12 stig, 12 fráköst og 4 fiskaðar villur. Viktor Lee Moses var besti maður vallarins en það dugði ekki til í dag. Moses var með 36 í framlag, 28 stig, 10 fráköst og þrír stolnir boltar fyrir heimamenn.

Tölfræðin lýgur ekki:

Þórsarar sigruðu frákastabaráttuna með níu fráköstum en þegar litið er á þriggja stiga tölfræðina þá sést mikill munur. Fjölnismenn voru 7 af 24 á móti 13 af 30 hjá gestunum.

Fáir með framlag:

Hjá Fjölni voru Jere, Srdjan og Viktor langatkvæðamestir og skiluðu alls 86 af 98 framlagspunktum liðsins. Þeir skoruðu allir yfir 20 stig. Vandamál Fjölnis liggur í takmörkuðu framlagi hinna leikmannanna. Teddi skilaði sjö stigum og Tómas skoraði tvö stig, þau stig komu þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum. Róbert sem er einn af lykilmönnum Fjölnismanna fann sig alls ekki í leiknum og var með 0 framlagspunkta á 37 mínútum tæpum. Róbert var 0 af 10 í skottilraunum í kvöld en skilaði 8 stoðsendingum, svo eitthvað jákvætt sé tekið fram.

Myndbandsdómgæsla:

Villa var dæmd á Fjölni þegar Vincent keyrði á körfuna á lokamínútum leiksins. Vincent var í skottilraun þegar villan var dæmd en Viktor varði skot hans við hringinn. Dómararnir voru ekki vissir með hvort um ólöglegan varnarleik var að ræða og þurftu að fara upp í blaðamannaaðstöðu til að skoða endursýningu. Leikurinn var stopp í dágóða stund sem var ekkert svakalega áhorfendavænt. Niðurstaðan var karfa góð fyrir Þór sem hjálpaði til á lokakaflanum.

Ákall til stuðningsmanna:

Falur, þjálfari Fjölnismanna, kallaði eftir betri mætingu frá stuðningsmönnum Fjölnis á heimaleiki liðsins. Hann segir mikla skemmtun í boði fyrir þá sem nenna að mæta. Nánar um þetta í viðtali við Fal eftir leik.

Myndasafn: Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -