spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÍR fyrsta liðið til að sigra KR

ÍR fyrsta liðið til að sigra KR


Um leikinn: 

Íslandsmeistararnir mættu í Breiðholtið í fyrsta skiptið frá úrslitaeinvíginu í vor. KR var taplaust fyrir leik kvöldsins og ÍR búið að sigra tvo leiki í röð. Leikurinn var gífurleg skemmtun sem enginn var svikinn af. Flott stemning hjá KR, mikið hrós á Bóas og stemningin frábær hjá heimamönnum.

ÍR hafði betur, skotin duttu á réttum tímum og vörnin var frábær hjá heimamönnum. Evan, Georgi og Sæþór settu mikilvæga punkta á töflun, Pryor með fimm stig í röð undir lok þriðja og Florian setti bæði víti sín niður undir lokin.

Gangur leiks: 

Fyrri hálfleikur var athyglisverður, lágt stigaskor og mikil barátta. KR náði upp góðu forskoti í öðrum leikhluta en stemningin kom með góðum körfum og varnarleik hjá ÍR sem náði að minnka niður í þrjú stig fyrir hálfleik. Georgi var stigahæstur í hálfleiknum með 17 stig.

Seinni hálfleikurinn var mikil skemmtun og skemmtanagildið mikið. Dómaraósætti og barátta, allt eins og það á að vera. Staðan var 64-64 þegar fimm mínútur voru eftir. KR setti næstu fimm stig en ÍR kom til baka með stórum körfum og frábærum varnarleik. Craion fékk boltann þegar lítið var eftir af leiknum inn í teig og fór upp í sniðskot þegar þurfti þrist, KR náði ekki að brjóta á þeim litla tíma sem var eftir og ÍR sigraði leikinn.

Vendipunkturinn:

Líkt og gegn Völsurum fannst mér í raun vendipunkturinn vera þegar ÍR jafnar og kemst yfir í seinni hálfleik. Það fyllti liðið trú sem kemur liðinu langt. Þá áttu Sæþór og Evan sérstaklega nokkra sterka þrista sem koma til greina ásamt fimm stiga syrpunni hjá Pryor undir lok þriðja.

Hetjan: Georgi Boyanov

Georgi var frábær í kvöld. Stigahæstur í fyrri hálfleik og setti níu í viðbót í seinni hálfleiknum. Georgi fiskaði þá sex villur og kom sér fjórum sinnum á línuna. Í fyrstu þremur ferðum sínum klikkaði hann á fyrra vítinu en setti það seinna en þegar mest á reyndi setti hann bæði niður.

Tölfræðin lýgur ekki:

KR tapaði 20 boltum gegn 14 hjá ÍR. Craion með vondar tölur þar eða alls níu tapaða bolta. Craion var þá einnig langt frá sínu besta.

Endurkoma Matthíasar í hellinn:

Matthías byrjaði sterkt og var fljótt kominn með átta stig. Hann klikkaði á síðustu þremur skotum sínum af gólfinu í fyrri hálfleik og létu ÍR-ingar í stúkunni hann vita af því að tímar hans sem aðalmaðurinn í Hellinum væru liðnir. Sæþór varði skot frá Matta sem vakti mikla lukku í stúkunni.

Meiðsli og veikindi:

Jón Arnór Stefánsson meiddist í leiknum og tók ekki þátt undir lokin vegna eymsla í hné, meira er ekki vitað um meiðslin að svo stöddu. Þá voru Sigurður Þorsteinsson og Kristófer Acox fjarverandi. Kristó er með ælupest og Sigurður meiddist gegn Þór en Borche segir hann vera byrjaðan að hreyfa sig.

Myndasafn (Væntanlegt)

Viðtöl eftir leik:

Fréttir
- Auglýsing -