spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karla„Leið aldrei eins og staða mín væri í hættu“

„Leið aldrei eins og staða mín væri í hættu“

Manuel Rodriquez var á dögunum vikið úr starfi þjálfara meistaraflokks karla hjá 1. deildar liði Skallagríms. Manuel þjálfaði meistaraflokk kvenna fyrir nokkrum árum í tvö ár með góðum árangri. Hann var því mættur aftur í Borgarnes en samstarfið var stutt í þetta skiptið. Einungis tveir mánuðir eru síðan Manuel tók til starfa og bara þrír leikir búnir í deildinni. 

Karfan heyrði hljóðið í Manuel eftir brottreksturinn, fékk viðbrögð hans og ástæður fyrir honum. Þá viðurkenndi hann að honum væri brugðið.

„Ég er mjög sorgmæddur. Ég gat ekki ímyndað mér að eitthvað eins og þetta gæti gerst. Mér leið aldrei eins og staða mín væri í hættu. Ákvörðun stjórnarinnar var mjög óvænt og ég bjóst engan vegin við henni. Þetta er 20. árið mitt sem atvinnuþjálfari og í fyrsta sinn sem ég er látinn fara á miðju tímabili, maður lærir alltaf eitthvað nýtt.“ sagði Manuel um fregnirnar sem hann fékk á þriðjudag.

Manuel hefur þjálfað í Rúmeníu frá því hann fór frá Borgarnesi síðast auk þess að starfa sem leikgreinandi. Hann var orðaður við endurkomu í Dominos deild kvenna í upphafi árs þegar Ari Gunnarsson var látinn fara frá liði Skallagríms en á endanum varð ekkert úr. En hvað fékk Manuel til að koma aftur:

„Í sumar neitaði ég tilboðum frá Rúmeníu og Þýskalandi í sumar en langaði að fara aftur í Borgarnes í langt og spennandi verkefni. Kannski hafði ég rangt fyrir mér þegar ég lét hjartað ráða för. Mér leið mjög vel í Borgarnesi en kannski hefði ég ekki átt að snúa aftur í það.“ sagði hann og bætti við um verkefnið sem hann tók við í Borgarnesi:

„Þegar ég skrifaði undir í sumar, var samningurinn til þriggja ára og var markmiðið að hefja uppbyggingu á karlaliðinu, leggja mikla áherslu á framfarir einstaka leikmanna og tveimur mánuðum eftir að ég hóf störf hefur það plan breyst. Einnig átti ég að sjá um þjálfun og vera leiðbeinandi fyrir aðra þjálfara hjá félaginu. Ég skipulegg og samræmi æfingar og áherslur fyrir alla aldurshópa. Tek þátt í æfingum hjá öllum flokkum reglulega til að sjá til þess að farið sé eftir þeim áherslum sem settar eru. Ég held að það hafi ekki verið hugsað til þessara verkefna þegar ég var látinn fara.“

Þegar ástæðan fyrir brottrekstri Manuels er rædd er ljóst að hann er ekki parsáttur við þær ástæður sem honum voru gefnar. 

„Ég hélt við værum öll á sömu blaðsíðu en ég hafði rangt fyrir mér. Því nokkrir leikmenn hugsa bara um sjálfa sig.“ sagði Manuel og bætti við:

„Á fundi sem ég átti með karlaráði félagsins staðfestu þeir að ástæðan fyrir brottrekstrinum hafi verið slæm sambönd og samskipti við leikmenn, sem ég trúi ekki að sé satt. Ég hef alltaf verið heiðarlegur, ástæðan sem ráðið hefur gefið mér fyrir uppsögninni hljómar eins og afsökun. Ég veit að þau hafa ekki verið heiðarleg við mig.“

„Í uppsagnarbréfinu segir að ástæðan sé sú að ég hafi ekki staðist væntingar félagsins. Mér finnst sú ástæða betri en ég hefði samt viljað vita hverjar væntingarnar voru. Þar sem ég hreinlega veit ekki hverjar þær eru í dag. Væntingarnar voru að byggja upp liðið og stuðla að framförum ungra Borgnesinga en þær hafa greinilega breyst á þessum tveimur mánuðum.“

Tilkynning Skallagríms kom á miðvikudagskvöldið en einungis þrír leikir eru búnir í deildinni. Skallagrímur hefur tapað þeim öllum, þeim síðasta gegn nágrönnum sínum í Snæfell um síðustu helgi. Svo virðist sem það hafi verið dropinn sem fyllti mælinn.

„Allir í Borgarnesi vita hver er á bakvið þessa ákvörðun, varið ykkur á að það er úlfur í sauðagæru.“ Sagði Manuel sem er greinilega mjög brugðið við brottreksturinn. 

„Það er auðveldara að reka þjálfara heldur en leikmenn, það er grimmur veruleiki þjálfarans. Ég hefði viljað fá tækifæri til að kveðja liðið almennilega og ræða við þá augnliti til augnlitis. Stjórnin bannaði það hinsvegar og var það því ekki mögulegt.“ 

„Ég yfirgef félagið með hreina samvisku þar sem ég tel mig hafa sinnt starfinu eins vel og ég gat. Aldrei á þessum tveimur mánuðum var ég með allt liðið í höndunum vegna meiðsla og breytinga. Ef þeim finnst þetta vera besta lausnin, þá virði ég það en ég er ekki sammála þessari ákvörðun. Tíminn einn mun leiða í ljós hver hafði rétt fyrir sér.“

Að sögn Manuels ætlaði hann að byggja upp til framtíðar og koma Skallagrím aftur upp í deild þeirra bestu með tíð og tíma. „Staðreyndin er sú að það virðist engin þolinmæði vera fyrir því að leyfa hlutum að þróast, það er óheppilegur veruleiki sem við lifum í. Heimur þar sem vinnusemi, skuldbinding og erfiði er ekki til.“ segir Manuel um ákvörðun félagsins og sendi leikmönnum liðsins pillu.

„Mikil er vorkunn þeirra leikmanna sem vita ekki hvernig á að njóta erfiðisins í átt að markmiðinu en ég tek hatt minn ofan fyrir þeim leikmönnum sem lögðu meira á sig með hverjum deginum. Ég þarf ekki að nafngreina þessa leikmenn, þeir vita hverjir þeir eru. Þrátt fyrir allt, þá óska ég þess að þessi ákvörðun sem þeir tóku hjálpi þeim að bæta sig og ná sínum markmiðum.„

Það hefur margoft komið fram í viðtölum Manuels að honum hefur líkað dvölina í Borgarnesi í gegnum tíðina og mun ekki draga úr því þrátt fyrir þennan viðskilnað við lið Skallagríms. 

„Að lokum langar mig að þakka fyrir öll skilaboðin og stuðninginn sem ég hef fengið þessa síðustu daga frá fólkinu í Borgarnesi, leikmönnum, ungum leikmönnum, foreldrum, stuðningsmönnum og allstaðar af á Íslandi.“

Borgnesingar töpuðu fyrsta leiknum eftir að Manuel fór frá liðinu í gær er liðið tapði gegn Vestra 110-90. Hinn ungi þjálfari Atli Aðalsteinsson stýrir liðinu tímabundið en fróðlegt verður að sjá hvort þjálfarinn efnilegi fái tækifæri til að stýra liðinu áfram eða hver tekur við liðinu.

Fréttir
- Auglýsing -