Í kvöld mættust Haukar og Breiðablik í 4. umferð Domino´s deildar kvenna. Haukarnir höfðu betur í hörkuleik.
Gangur leiksins
Á upphafs mínútum leiksins voru bæði lið að skora og mátti búast við hörku sóknarframmistöðu frá báðum liðum. En svo þéttust varnirnar og bæði lið voru að ná góðum stoppum varnarmegin. Haukarnir höfðu frumkvæðið allan leikinn og voru yfir allan leikinn nema á upphafsmínútunum.
Þrátt fyrir að leiða allan leikinn þá náðu Haukar aldrei alvöru forskoti og keppnisharka Blika hélt þeim inni í leiknum allan tímann. Í lok leiksins þegar Janine Gujit kom Haukum níu stigum 64-55 og ein 1:13 eftir af leiknum héldu flestir að leikurinn væri búinn. En Blikarnir gáfust aldrei upp og náðu að gera þetta spennandi alveg fram í lokin. Lokatölur 64-62 Haukum í vil.
Tölfræðin lýgur ekki
Haukarnir fengu mun fleiri skot í kvöld og munaði það í lokin. Ekkert gekk að hitta hjá báðum liðum og sérstaklega hjá heimaliðinu. Haukarnir fengu 86 skot og 8 vítaskot á meðan Breiðablik tók 58 skot og 16 vítaskot. Þessi aukni fjöldi skota hjálpaði sigurliðinu að landa sigri í kvöld.
Hetjan
Rósa Björk Pétursdóttir var prímusmótorinn af bekknum og hjálpaði liðinu að landa mikilvægum sigri. Hún var með 13 stig og ágæta skotnýtingu.
Samantekt
Það var mikil barátta hjá báðum liðum í kvöld og bæði lið ætluðu sér sigur. En í lokin reyndist seigla Haukanna meiri og öll þau aukaskot sem liðið fékk hjálpaði heimaliðinu að landa sigri.
Viðtöl eftir leik:
Rósa Björk Pétursdóttir: Ekkert vanmat í kvöld
„Við vorum alls ekki að vanmeta Blikana í dag. Þær eru með hörkulið og spiluðu flottan leik,“ sagði Rósa Björk Pétursdóttir leikmaður Hauka eftir sigur í kvöld á liði Breiðabliks. Rósa kom inn af bekknum og spilaði mjög vel fyrir heimaliðið og skoraði m.a. mikilvægar körfur.
„Í dag reyndist liðsheildin okkur afar sterk. Við vorum að spila saman og opna fyrir hvor aðra. Sóknarlega gekk okkur vel að spila saman þó boltinn vildi ekki alltaf ofaní. Varnarlega vorum við ekki nógu fastar fyrir nema kannski í lokin,“ sagði Rósa og bætti við. „Við hefðum mátt vera sterkari í vörninni í upphafi leiks en þetta dugði til í kvöld.“
Þórdís Jóna Kristjánsdóttir: Vörnin aðeins að klikka
Þórdís Jóna Kristjánsdóttir var einn besti leikmaður Blika í leiknum gegn Haukum í Domino´s deild kvenna í kvöld. Hún skoraði 12 stig og spilaði flotta vörn.
„Það er erfitt að segja hver var munurinn hér í kvöld. Þetta er leikur þar sem sigurinn hefði getað dottið fyrir bæði lið. Vörnin var aðeins að klikka og þá fráköstin. Sóknarlega gekk ágætlega við vorum að keyra á körfuna og skora,“ sagði Þórdís Jóna og bætti við. „Við sýndum það alveg í dag með þessari frammistöðu að við getum alveg unnið leiki í þessari deild.“