Stjörnumenn tóku á móti ÍR í annarri umferð Domino’s deildar karla í Mathús Garðabæjarhöllinni. Rimmur þessara liða síðustu ár eru margfrægar og er mörgum enn í fersku minni þegar ÍR sló út deildar- og bikarmeistara Stjörnunnar í undanúrslitum úrslitakeppni síðasta árs.
Hins vegar var ljóst strax frá fyrstu mínútu í leik gærdagsins að ÍR myndi ekki fara með sigur af hólmi í þetta sinn. Stjörnumenn voru yfir á öllum sviðum körfuboltans strax frá uppkastinu og höfðu afar sanngjarna 13 stiga forystu í hálfleik, sem hefði líklega verið mun stærri ef ekki hefði verið fyrir hetjudáðir Collins Pryor sem skoraði 18 stig í fyrri hálfleik fyrir gestina.
Í þeim síðari slokknaði hins vegar algerlega á Pryor sem og öðrum ÍR-ingum. Stjörnumenn gengu þá á lagið og unnu að lokum öruggan 29 stiga sigur, 103-74.
Bestur
Mikið jafnræði var innan Stjörnuliðsins, sem fékk framlag úr öllum áttum. Jamar Akoh var illráðanlegur í vítateignum, auk þess sem heimamenn fengu körfur úr öllum áttum frá mönnum á borð við Kyle Johnson, Nick Tomsick og Hlyni Bæringssyni.
Næst
Stjörnumanna bíður erfitt verkefni í næstu umferð þegar þeir mæta Tindastóli á Sauðárkróki 17. október næstkomandi. ÍR-ingar taka hins vegar á móti Val í Reykjavíkurslag daginn eftir, 18. október.