Fyrrum NBA leikmaðurinn Darko Miličić hefur tekið fram skóna aftur og lék sinn fyrsta opinbera leik síðan 2012 á mánudaginn í fjórðu deildinni í Serbíu.
Darko gekk til liðs við áhugamannaliðið I Came to Play í september. Liðið er í heimabæ hans í Novi Sad og var stofnað fyrr á árinu til að gefa námsmönnum í borginni tækifæri á að halda áfram körfuboltaferli sínum og spila með reynslumiklum leikmönnum en auk Darko fékk liðið til sín fyrrum atvinnumennina Jovo Stanojević, Branko Cvetkovic og Dragan Ćeranić.
![](https://www.karfan.is/wp-content/uploads/2019/10/darko-thridekkadur.jpg)
Darko, sem er orðinn talsvert kjötaðri en þegar hann var í NBA, þótti sýna góða takta í fyrsta leiknum en hann skoraði 2 stig auk þess að gefa nokkrar stoðsendingar áður en hann fór af velli með smávægileg axlarmeiðsli. Það kom ekki að sök því liðið vann öruggan 78-50 sigur á KK Futog í leiknum.
![](https://www.karfan.is/wp-content/uploads/2019/10/darko-trodsla.jpg)
Darko var valinn annar í nýliðavalinu 2003 af Detroit Pistons. Hann varð NBA meistari með félaginu 2004 og varð þar yngsti leikmaðurinn til að spila í Finals leik, 18 ára og 356 daga gamall. Þrátt fyrir að ferillinn hafi ekki orðið jafn glæstur og menn vonuðu þá spilaði hann 10 tímabil í deildinni og sýndi á köflum góða takta.