Stjörnumenn tilkynntu nú fyrir skemmstu að liðið hefði samið við bandarískan leikmann fyrir átökin sem framundan eru í Domino’s deild karla. Sá heitir Jamar Akoh og er 23 ára bandarískur miðherji sem leikið hefur með Montana-háskóla undanfarin ár og útskrifaðist þaðan síðasta vor.
Á sínu síðasta ári í háskólaboltanum skilaði Akoh 15,5 stigum og 8,7 fráköstum fyrir Montana, en nú mun kappinn hefja atvinnumannaferilinn í Garðabæ. Í tilkynningu frá Stjörnunni segir að með undirskrift Akoh sé leikmannahópur liðsins nú tilbúinn og að undirbúningur liðsins fyrir tímabilið sé nú kominn á fullt. Stjörnumenn lönduðu deildar- og bikarmeistaratitli á síðasta tímabili, en duttu út úr úrslitakeppninni í undanúrslitarimmu við ÍR.