Undir 16 ára lið Íslands leikur þessa dagana á Evrópumótinu í Podogorica í Svartfjallalandi. Í dag lagði liðið Írland í lokaleik sínum á mótinu og hafna þeir því í 15. sæti þess þetta árið.
Íslensku strákarnir mættu klárir til leiks í dag. Leiddu með 10 stigum eftir fyrsta leikhluta, 18-8. Undir lok fyrri hálfleiksins náði Írland þó aðeins að komast inn í leikinn, en Ísland hélt forystu sinni. Staðan 35-22 fyrir Ísland þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik.
Í upphafi seinni hálfleiksins var leikurinn nokkuð jafn. Ísland þó áfram skrefinu á undan, náðu að halda forystu sinni fram að lokaleikhlutanum. Í honum gerðu þeir svo nóg til þess að sigla nokkuð góðum 8 stiga sigri í höfn, 75-67.
Atkvæðamestu fyrir Ísland í leiknum var Orri Gunnarsson með 21 stig, 6 fráköst, 3 stoðsendingar, 3 stolna bolta og 2 varin skot.