Landsliðsmaðurinn Martin Hermannsson leikmaður Alba Berlín er þessa dagana í fríi á Íslandi eftir frábært tímabil í Þýskalandi. Fríið notar hann til að mynda í að spila golf.
Í gær gerði hann sér lítið fyrir og fór holu í höggi á 17. holu Leirdalsvallar í Kópavogi og Garðabæ. Frá þessu er greint á síðunni Kylfingur.is.
Þar kemur einnig fram að hann hafi verið í holli með þeim Elvari Má Friðrikssyni leikmanni Børas og Trausta Eiríkssyni leikmanni ÍR. Samkvæmt heimildum Körfunnar mun Trausti hafa staðið uppi sem sigurvegari eftir hringinn.
Á heimasíðu Kylfings segir Martin að það hefði verið einstök tilfinning að ná draumahögginu en þetta er í fyrsta skiptið sem hann fer holu í höggi.