Sigurður Gunnar Þorsteinsson hefur samið við franska liðið BC Orchies í Nationale Masculine 1-deildinni og mun leika með liðinu á næstu leiktíð. „Þeir ætla sér upp í Pro B eftir að hafa dottið út úr úrslitakeppninni á síðustu leiktíð,“ segir Sigurður sem hefur áður spilað erlendis í Svíþjóð og á Grikklandi.
Miðherjinn góðkunni var á meðal bestu leikmanna í Dominos deildinni á síðustu leiktíð þar sem hann var með 13,4 stig, 8,4 fráköst og 1,6 varin skot að meðaltali í leik fyrir ÍR. Hann var lykilmaður í spútnik-liði Breiðhyltinga sem komust í oddaleik gegn KR í lokaúrslitunum eftir að hafa endað í 7. sæti í deildarkeppninni. Sigurður var í lok tímabilsins valinn í úrvalslið Dominos deildar karla í fimmta sinn á tíu árum.
Varðandi ákvörðunina að fara frá ÍR sagði Sigurður að hún hefði alls ekki verið auðveld. „Það var erfitt, þetta er frábær klúbbur til að spila með og frábærir einstaklinga í öllum stöðum en mér langaði út aftur og það er tækifæri til þess núna. Ég vil þakka ÍR-ingum fyrir geggjað tímabil.“ sagði hann í samtali við Körfuna.