Borgnesingar hafa gengið frá samningum við nýjan þjálfara meistaraflokks karla en góðvinur bæjarins Manuel A. Rodriquez mun snúa til baka og stýra liðinu. Hann tekur við liðinu af Finni Jónssyni sem stýrt hefur liðinu síðustu ár.
Manuel þjálfaði meistaraflokk kvenna hjá liðinu í tvö ár þar sem hann kom liðinu upp í efstu deild og alla leið í úrslit bikarkeppninnar á sínu fyrsta ári með liðið í Dominos deildinni.
Á Facebook síðu Skallagríms segir: “Ég er mjög spenntur að fá tækifæri til að þjálfa karlalið Skallagríms næsta tímabil,” segir Manuel. “Það er mikil hamingja yfir því að snúa aftur í Borgarnes en ég á á mjög góðar minningar þaðan þau tvö tímabil sem ég þjálfaði kvennaliðið.”
Hann segir verkefnið framundan spennandi. “Ég vil þakka stjórn deildarinnar fyrir að treysta mér fyrir þessu verðuga verkefni. Körfuboltahefðin í Borgarnesi er sterk og ég er þess fullviss að stuðningsmenn muni fylkja sér bakvið liðið næsta tímabil. Við munum sannarlega þarfnast ykkar!”
“Það verður mikil barátta næsta tímabil og á brattan að sækja. Við munum hins vegar undirbúa okkur vel og af krafti og trúmennsku og ég mun leitast við að gera liðið erfitt viðureignar fyrir alla andstæðinga. Ég er reiðubúinn til að vinna sleitulaust að því að koma því á þann stall sem það á skilið. Þetta getur orðið löng og ströng vegferð, en við munum undirbúa okkur vel því ég tel að árangur náist með samstilltu átaki frá degi dag til dags á tímabilinu framundan.” sagði Manuel.
Skallagrímur leikur í 1. deild karla á næstu leiktíð eftir að liðið féll úr Dominos deildinni á nýliðinni leiktíð. Ljóst er að Borgnesingar missa leikmenn í sumar en þeir Björgvin Hafþór Ríkharðsson og Bjarni Guðmann Jónsson hafa staðfest brottför sína.