Úrslitleikirnir í Íslandsmóti 10. fl drengja og stúlkna auk úrslitaleiks unglingsflokks karla, fóru fram í dag í Röstinni í Grindavík.
Það voru drengirnir í 10. flokki sem riðu á vaðið en Stjarnan og Breiðablik mættust í úrslitaleiknum.
Deildakeppnin í 10. flokki var gríðarlega jöfn og voru 4 lið nánast jöfn, Fjölnir efstir með 16/2 record og Stjarnan, Hrunamenn/Þór Þorlákshöfn og Breiðablik öll með 14/4.
Hjá 10. flokki voru spiluð 16 liða úrslit, þ.e. að 7 efstu liðin í B-riðli komust í úrslitakeppni.
Leið Stjörnunnar var svona:
16-liða: Stjarnan – Grindavík 77-64
8-liða: Stjarnan – Njarðvík 87-62
Í undanúrslitum í gær mættu svo Stjörnumenn Hrunamönnum/Þór Þorlákshöfn og unnu 70-60.
Blikarnir sigldu svona í þennan úrslitaleik:
16-liða: Breiðablik – Höttur/Sindri 79-63
8-liða: Breiðablik – Tindastóll 82-78
Í undanúrslitunum mættu svo þeir grænu toppliði Fjölnis og unnu í æsispennandi leik, 48-50.
Leikurinn byrjaði í járnum og leiddu Stjörnumenn eftir 1. leikhluta 20-15. Eftir 6 mínútur í 2. hlutanum og Blikar búnir að vera betri og að vinna fjórðunginn 6-9, þá tók Magnús Bjarki þjálfari Stjörnunnar leikhlé til að vekja sína menn aftur til lífsins. Allt kom fyrir ekki og Stjörnumenn hreinlega gátu ekki keypt sér körfu! Vörn Blikanna var þarna búin að þéttast mikið og eins og oft vill verða, þá koma auðveldar körfur hinum megin og áður en varði voru Blikarnir komnir yfir, 26-31! Var ótrúlegt að sjá hrun Stjörnumanna út hálfleikinn og varla hægt að segja að hægst hefði á blæðingunni og leiddu Blikar í hálfleik 28-35, unnu sem sagt leikhlutann 8-20!
Væntanlega var það liðsvörn Blikanna sem breytti málum svona mikið en sömuleiðis má benda á að Stjörnumenn voru ansi klaufskir upp við körfuna og brenndu af nokkrum sniðskotum nánast óáreittir. Skv. tölfræðinni þá voru Arnar Freyr Traustason (14 í framlag) og Veigar Elí Grétarsson (11) sem tóku mestan þátt í vagndrættinum en hjá Stjörnunni einungis Brynjar Bogi Valdimarsson í 2-stafa tölu (11)
Stjörnumenn ætluðu sér að sjálfsögðu að mæta grimmir til leiks í seinni hálfleik en oft er vilji ekki nóg og eftir 7 mínútur í 3. leikhluta var munurinn kominn upp í 12 stig, 34-46, Stjörnumenn bara búnir að skora 6 stig og það að skora boltanum greinilega Akkilesarhællinn. Magnús Bjarki tók þá leikhlé og þar sem ég var nánast á bekknum þá heyrði ég hvernig hárþurrkan fór í gang og ætlaði hann sér greinilega ekki að leggjast flatur! Ræðan virkaði greinilega eitthvað því Störnumenn byrjuðu að skora og vörnin hertist sem skilaði sér að munurinn jókst ekki úr hálfleiknum og því áfram 7 stiga forysta Blika fyrir lokadansinn.
Stjörnumenn komu brjálaðir til leiks í 4. leikhlutanum og viska mín um leikinn segir mér að vörnin var lylkillinn. Eftir 6 ½ mínútu var staðan 10-2 fyrir þá og þeir grimmir í alla lausa bolta! Þvílíki úrslitaleikurinn í gangi! Stjarnan yfir 53-52 og fengu nokkur tækifæri á að koma muninum hærra en Blikarnir ekki af baki dottnir og jöfnuðu og settu svo þrist í næstu sókn, 53-56! Stjarnan minnkaði muninn í 1 stig og Blikarnir klikkuðu! Sóknarvilla var svo dæmd á Stjörnuna og 23,7 sekúndur eftir og Stjörnumenn reyndu að stela en neyddust svo til að brjóta þegar 16,9 sek eftir en Blikarnir ekki komnir í skotrétt. Stjarnan var næstum búin að stela en braut þá strax og Haraldur Kristinn setti bara annað vítið niður, 55-57 og lokasóknin að öllum líkindum Stjörnumanna, rafmögnuð spenna og á þessum tímapunkti var dj-inn í húsinu kominn í mikinn gír! Orri Gunnars braust glæsilega í gegn en geigaði í opnu sniðskoti og Ingimar Ólafs „ísaði“ leikinn með 2 vítum og lokaniðurstaðan þá 55-59, Breiðablik Íslandsmeistari í 10. flokki!
MVP leiksins var valinn Arnar Freyr Tandrason en hann skilaði 20 í framlag (26 stig og 10 fráköst). Hann var frábær á báðum endum vallarins og er vel að nafnbótinni kominn.
Hjá Stjörnumönnum var fyrirliðinn Brynjar Bogi Valdimarsson bestur og skilaði sömuleiðis flottum tölum, sama framlag og MVP (20), 24 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar.
Við óskum Blikum til hamingju með ÍSLANDSMEISTARATITILINN!
Umfjöllun, viðtöl / Sigurbjörn Daði