Í hinum undanúrslitaleiknum í unglingaflokki karla mættust KR og Breiðablik. KR endaði í 2. sæti í deildarkeppninni á meðan Blikarnir tóku 5. sætið. KR fór nokkuð auðveldlega í gegnum sameinað lið Grindavíkur og Keflavíkur í 8-liða úrslitum, 87-72 en Blikarnir tóku Hauka sem áttu heimavöllinn vegna 4. sætisins í deildinni, 64-77. M.v. einu viðureign liðanna í vetur þá mátti búast við hörkuleik en þann leik unnu KR-ingar á útivelli, 96-97.
Eins og fram kom í pistlinum um fyrri undanúrslitaleikinn, þá tefla þessi lið fram leikmönnum sem létu ljós sitt skína í Domiosdeildinni í vetur en hjá KR var það Orri Hilmarsson en 3 Blikar spiluðu rullu, Arnór Hermanns, Hilmar Péturs og Sveinbjörn Jóhannesson.
Leikurinn byrjaði í miklu jafnvægi og munaði aldrei meira 1-4 stigum á liðunum og leiddu þeir röndóttu að loknum byrjunarhlutanum, 23-21. M.v. byrjunina ljóst að hér yrði barist til síðasta blóðdropa! Það nákvæmlega sama uppi á teningnum í 2. leikhluta og leiddu KR-ingar þegar haldið var til hálfleikspásu, 45-42 eftir að Blikarnir höfðu náð forystu stuttu áður.
Orri Harðar og Ólafur Þorri Sigurjónsson voru atkvæðamestir KR-inga í fyrri hálfleik með 14 og 12 í framlag og hjá Blikum voru fyrrnefndir Hilmar, Arnór og Sveinbjörn með mest framlag (17, 13 og 13).
Eitthvað virðist Smári Hrafnsson, þjálfari Blikanna hafa sett aukalega út í te-ið hjá sínum mönnum því þeir tóku völdin fljótlega í seinni hálfleik og settu fyrstu 8 stigin og grænir því komnir í forystu, 45-50. KR-ingar eldri en tvæ vetur þrátt fyrir ungan aldur og voru fljótir að jafna. Blikarnir samt við stýrið og tóku ansi hressilegt run sem skilaði sér í 9 stiga forystu, 50-59. Þessi leikhluti algerlega eign Blika, 7-17! Hjalti Vilhjálms, þjálfari KR tók þá leikhlé og reyndi að berja sínum mönnum baráttu í brjóst! Það gekk til að byrja með, fyrstu 5 stig KR-inga en Blikarnir fljótir aftur í sama gír og munurinn rauk aftur upp í 9 stig, 55-64. KR-ingar áttu í miklum vandræðum með að finna körfuna og enduðu fjórðunginn á 12 skoruðum stigum, það er ansi lítið…. Blikarnir hins vegar í góðum gír á báðum endum vallarins og leiddu fyrir lokabardagann, 55-68. Ótrúlegar sviptingar eftir mjög svo jafnan fyrri hálfleik!
Varnirnar hertust í 4. og var staðan 3-6 fyrir Blikana þegar 5:27 voru eftir og Hjalti tók leikhlé enda hans menn 16 stigum undir! KR-ingar reyndu en allt kom fyrir ekki og öruggur Blikasigur staðreynd, akkurat eins og undirritaður spáði í upphafi leiks…. Lokatölur 76-89.
Þríeykið magnaða átti stærstan þátt í sigri Blikanna en Sveinbjörn skilaði 30 í framlag (22 stig (9/10 í 2-stiga skotum!!) og 14 fráköst ), Hilmar 28(22 stig og sömuleiðis með frábæra skotnýtingu 6/6 í 2 og 2/3 í 3, 6 fráköst og 4 stoðsendingar ) og Arnór með 21 (14 stig, 9 fráköst og 5 stoðsendingar).
Eftir flottan fyrri hálfleik er varla hægt að tala um að einhver KR-ingur hafi staðið sig en Orri t.d. endaði með 13 í framlag en hafði verið með 14 í hálfleik…. KR-ingar einfaldlega mættu ekki til leiks í seinni hálfleik og því fór sem fór.
Framundan hörku úrslitaleikur á milli Njarðvíkur og Blika á sunnudag kl. 14:00 en Njarðvíkingar unnu leikinn í deildinni 102-86. Þá vantaði nokkra af lykilmönnum Blika svo ljóst er að hörku leikur er framundan!
Umfjöllun, viðtöl / Sigurbjörn Daði