Það hefur sennilega ekki farið fram hjá nokkru einasta mannsbarni hér á landi að oddaleikur Reykjavíkurliðanna KR og ÍR fór fram í DHL-höllinni í 107 Reykjavík í kvöld. Með sigri gátu KR-ingar tryggt sér sinn sjötta Íslandsmeistaratitil í röð en ÍR-ingar gátu unnið titilinn í fyrsta sinn í 42 ár.
Stórt skarð höggvið í ÍR
ÍR-ingar urðu fyrir miklu áfalli daginn fyrir leik þegar ljóst varð að Kevin Capers, besti leikmaður liðsins í úrslitakeppninni hingað til, væri handleggsbrotinn og gæti ekki leikið með liðinu í oddaleiknum. Einhvern veginn urðu Breiðhyltingar hins vegar að jafna sig á því og kom Sæþór Elmar Kristjánsson inn í byrjunarlið gestanna í fjarveru Capers, og skoraði fyrstu stig leiksins með góðu stökkskoti.
Eftir það tóku KR-ingar hins vegar öll völd á vellinum og eftir að Mike Di Nunno kom KR í 3-2, með einum af sjö þristum sínum í leiknum, náði ÍR aldrei forystunni aftur. Di Nunno skoraði 12 stig úr fjórum skotum fyrstu fjórar mínútur leiksins og virtust heimamenn einfaldlega ætla að gera út um leikinn strax í upphafi. Gestirnir úr Breiðholti náðu hins vegar að sýna það andlit sem hefur heillað marga í úrslitakeppninni í lok fyrsta fjórðungs, og að loknum fyrsta leikhluta höfðu KR-ingar 2 stiga forystu, 22-20.
Eftir þetta var sigur KR-inga aldrei í hættu. Heimamenn einfaldlega völtuðu yfir Breiðhyltinga, sem virtust gjörsamlega búnir á því eftir þrjár seríur sem allar fóru í oddaleik. Lokatölur í DHL-höllinni 98-70 og sjötti titill KR í röð staðreynd.
Hver stóð upp úr?
Mike Di Nunno héldu engin bönd í kvöld, en kappinn skoraði 29 stig og þar af sjö þrista úr ellefu tilraunum. Þá var Julian Boyd einnig frábær með 21 stig. Einnig er vert að minnast á framlag Emils Barja sem setti þrjá þrista úr 6 tilraunum, og Jóns Arnórs Stefánssonar sem skoraði 10 stig, en báðir spiluðu þeir auk þess frábæra vörn á bakverði ÍR-inga, sem áttu afar erfitt uppdráttar.
Hvað þýða úrslitin
KR er Íslandsmeistari karla í körfubolta, sjötta árið í röð. Til hamingju KR!