spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaÍR sendi Stjörnuna í sumarfrí

ÍR sendi Stjörnuna í sumarfrí

Það var vel mætt í Mathús Garðabæjarhöllina í kvöld. Oddur frændi í heimsókn og allt að frétta. Kjarni málsins í kvöld var ekki flókinn. Sigur eða sumarfrí.

Stjörnumenn voru örlítið framar fyrstu mínútur leiksins en í öðrum leikhluta komust ÍR-ingar á flug og komust 13 stigum yfir. Staðan 37 – 50 í hálfleik og brekka fyrir Stjörnuna. ÍR bætti svo bara í og komst mest 21 stigi yfir en Garðbæingar minnkuðu muninn fyrir síðasta fjórðunginn.

Maður beið alltaf eftir áhlaupinu frá Stjörnunni en þegar það kom, var það of seint. Lokatölur: 79 – 83 og ÍR komnir í úrslit þar sem þeir mæta KR-ingum.

Stigahæstur Breiðhyltinga í dag var Gerald Robinson með 22 stig og 10 fráköst en hjá Stjörnunni var Anti Kanervo stigahæstur með 19 stig.

Baráttan

Það var ótrúlega skemmtilegt að fylgjast með þessu ÍR liði. Þeir mættu í leikinn eins og grenjandi ljón og báru enga virðingu fyrir sterkum Stjörnumönnum sem virtust half skelkaðir.

Án þess að ætla að taka men sérstaklega út… þá ætla ég bara víst að gera það. Daði Berg Grétarsson skoraði kannski bara 5 stig, en hann var í stuttbuxunum á Brandon Rozzell allan leikinn og gerði honum lífið virkilega leitt. Frábær leikur frá Daða sem er minn maður leiksins.

Lykilmenn

Lykilmenn ÍR mættu í þennan leik. Matthías skoraði 20 stig, Gerald Robinson setti 22 og Kevin Capers 20. Allir voru þeir flottir í sínum hlutverkum.

Hjá Stjörnunni var alls ekki það sama upp á teningnum. Besti leikmaður Stjörnumanna lét Daða Berg einfaldlega taka sig úr umferð og skaut alltof lítið að mati undirritaðs. Brandon endaði með 13 skottilraunir, en 4 þeirra í blálokin. Í raun fáránlegt í oddaleik upp á líf og dauða. Hinn bakvörður Stjörnunnar, Ægir þór átti ekki mikið betri leik með 1 skot niður af 7 en gaf þó 9 stoðsendingar.

Næstu skref

Það er ljóst að úrslitarimman í ár verður KR – ÍR. Það er með ólíkindum að KRingar sem lokuðu deildinni í 5ta sæti munu byrja úrslitaeinvígið á sínum heimavelli.

Stjörnumenn eru farnir í sumarfrí. Deildarmeistarar og bikarmeistarar í vetur en einhvernvegin veit maður að það var ekki markmiðið. Markmiðið var sá stóri. Það gekk ekki eftir og nú er að sjá hvernig Stjörnuliðið mætir til leiks á næsta ári.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Ólafur Þór)

Fréttir
- Auglýsing -