spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaFjölnir aftur á leið í deild þeirra bestu

Fjölnir aftur á leið í deild þeirra bestu

Fyrir leik kvöldsins leiddu Fjölnismenn einvígið 2-1 eftir góðan heimasigur á Hamri 12. apríl í Grafarvogi. Til að knýja fram oddaleik í Grafarvogi þurftu Hamarsmenn því að sigra í kvöld. Þegar liðin mættust í Hveragerði þann 9. apríl var hart barist og eftir æsilegar lokasekúndur náðu Hamarsmenn að tryggja sér sigur.


Mikið af stuðningsfólki Fjölnis var mætt á völlinn og var ætlunin að hvetja Grafarvogsstrákana upp í deild meðal þeirra bestu. Þá hefur heimavallastuðningur Hamarsmanna í þessari úrslitakeppni verið til fyrirmyndar og því ljóst að baráttan yrði mikil bæði á áhorfendapöllum sem parketi frystikistunnar í kvöld.


Það hefur verið akkilesarhæll Hamarsmanna að byrja leikina í úrslitakeppninni illa en þeir slógu öll met í kvöld. Fjölnismenn léku á alls oddi við fáum svörum heimamanna og var forysta gestanna mest 13 stig þegar rúmar fjórar mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta og staðan 7-20 fyrir Fjölni. Eitthvað náðu heimamenn að rétta úr kútnum og var staðan eftir fyrsta fjórðun 23-29 fyrir gestunum úr Grafarvogi.


Annar leikhluti var töluvert jafnari en Fjölnismenn héldu þó sinni forystu. Hamarsmenn náðu mest að minnka muninn í þrjú stig en bæði lið skoruðu 25 stig í öðrum leikhluta og staðan 48-54 fyrir Fjölni í hálfleik. Allt á réttri leið hjá Fjölni og stuðningurinn úr stúkunni ekki síðri hjá gestunum heldur en heimamönnum.


Marques Oliver var nautsterkur undir körfunni fyrir gestina og var einu frákasti frá tvöfaldri tvennu í fyrri hálfleik en hann var með 10 stig, 9 fráköst og 2 stoðsendingar þegar fyrri hálfleik lauk. Srdan Stojanovic var með 17 stig í fyrri hálfleik fyrir Fjölni. Hjá Hamri var Everege Lee Richardson með 14 stig og 8 stoðsendingar, Oddur Ólafsson með 13 stig og Julian Rajic með 12 stig í fyrri hálfleik.


Fjölnismenn mættu talsvert áræðnari til leiks í seinni hálfleik og voru Hamarsmenn frekar flatir. Fá svör voru við góðri vörn Fjölnismanna og var sóknarleikur gestanna einnig mjög beittur. Fór svo að í lok þriðja leikhluta voru Fjölnismenn með 15 stiga forystu, 68-83.


Ekki var að sjá á líkamstjáningu heimamanna að mikil trú væri á verkefninu og að sama skapi fékk maður ekki á tilfinninguna að Fjölnismenn ætluðu að sleppa takinu af þessari forystu. Minnstur varð munurinn í fjórða leikhluta 13 stig og að lokum vann Fjölnir leikinn með afgerandi 19 stiga mun, 90-109.


Fjölnismenn voru beittari alla seríuna og vel að þessu sæti í Domino’s deildinni á næsta tímabili komnir.


Atkvæðamestir hjá Fjölni voru:
Marques Oliver með 24 stig, 15 fráköst og 7 stoðsendingar.
Srdan Stojanovic með 25 stig, 4 fráköst og 2 stoðsendingar.
Róbert Sigurðsson með 17 stig, 7 fráköst og 15 stoðsendingar.
Vilhjálmur Theódór Jóssnon með 21 stig, 1 frákast og 1 stoðsendingu.

Atkvæðamestir hjá Hamri voru:
Everage Lee Richardson með 25 stig, 4 fráköst og 10 stoðsendingar.
Julian Rajic með 18 stig, 3 fráköst og 4 stoðsendingar.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, viðtöl / Jóhannes Helgason

Fréttir
- Auglýsing -