Viðstaddur leik Íslands og Spánar í Laugardalshöllinni í gærkvöldi var einn af æðstu mönnum Alþjóða körfuknattleikssambandsins FIBA Kosta Iliev. Ásamt því að vera einn af helstu ráðgjöfum sambandsins er Kosta yfir þrír á þrjá mótum sem vaxið hafa gríðarlega síðasta áratuginn, en sjálfur var hann á sínum tíma leikmaður fyrir Khimik Vidin, CSKA og búlgarska landsliðið.
Ástæða nærveru Kosta á leiknum var hversu nálægt Ísland væri því að tryggja sig inn á lokamót HM í fyrsta skipti, minnst allra þjóða. Færi svo að Ísland færi á lokamótið, myndi þjóðin brjóta met Svartfjallalands, sem árið 2019 komst á lokamót HM, frá þjóð sem þá taldi um 620 þúsund manns.
Karfan nýtti tækifærið og spjallaði við Kosta. Sagði hann að alþjóðasambandið hefði viljað vera viðstatt kraftaverkið sem er að gerast á Íslandi, þar sem ekki aðeins ætti karlalandslið þjóðarinnar góða möguleika á að komast minnst allra þjóða á lokamót HM í fyrsta skipti, heldur væri einnig mikill uppgangur í yngri landsliðum þjóðarinnar. Þar sem að á síðasta ári hefðu yngri landsliðin verið þau sextándu bestu af fimmtíu og tveimur þjóðum álfunnar. Þá sagði hann einnig að þegar hann hafi byrjað hjá FIBA fyrir 20 árum hafi Ísland aðeins leikið við aðrar smáþjóðir líkt og Kýpur, Gíbraltar og Andorra en það sé ekki þannig lengur, þar sem nú leiki þeir við sterkari þjóðir og séu við það að tryggja sig inn á lokamót HM.
Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil