spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaUmfjöllun: Peningar eða ástríða?

Umfjöllun: Peningar eða ástríða?

Það var ófremdarástand í Breiðholtinu í kvöld. Hvergi var löglegt stæði að finna í hverfinu strax um sexleytið og skömmu síðar bárust fréttir um að allir hamborgarar hjá birgjum á höfuðborgarsvæðinu væru uppseldir. Ástæðan auðvitað annar leikur ÍR-inga gegn Stjörnunni í undanúrslitunum í móðuríþróttinni. Það var því hætt við að sumir færu svangir, fátækir og tapsárir heim eftir leik.

Spádómskúlan: Kúlan var fljót til svars að þessu sinni og sagði: ,,Flýgur mér þá í hug staka“:

Eldur úr augum ÍR-inga

allir Gettó-arnir syngja

en Ofurmennið mun þó brátt

angans greyin leika grátt.

Já…sem þýðir að leikurinn verður nokkuð jafn þar til Ofurmennið setur þrjá þrista í röð seint í fjórða og tryggir Stjörnusigur, 74-80.

Byrjunarlið:

ÍR: Robinson, Siggi, Fissi Kalli, Matti, Capers

Stjarnan: Hlynur, Tommi, Ægir, Antti, Rozzell

Gangur leiksins

Ægir hóf leik á því að hlaupa alla af sér ítrekað og skoraði 4 fremur ódýr stig fyrir gestina. ÍR-ingar lokuðu á slíka vitleysu og Capers kom heimamönnum yfir í 6-4 með þristi og stemmarinn geðsjúkur í Hellinum! Þó voru það Stjörnumenn sem leiddu lengst af með nokkrum stigum í fyrsta fjórðungi. Matti sá til þess að allt var jafnt að honum loknum, staðan 16-16.

Það var ljóst að bæði lið tóku varnarleikinn mjög alvarleg og í takt við það kom Daði Berg inn á í fyrsta skipti í ansi langan tíma til höfuðs Ofurmenninu. Eftir 13 mínútna leik var staðan 18-18 og mætti halda að handboltaleikur væri í gangi. Þá náðu Stjörnumenn nokkrum hröðum sóknum og skotvélarnar í það minnsta að hósta lítið eitt. Þegar 4 mínútur voru til hálfleiks leiddu gestirnir 20-29 eftir þrist frá Antti. Eins og yfirleitt alltaf leggjast Breiðhyltingar ekki í neitt volæði og Matti og Siggi sáu til þess að munurinn var aðeins sex stig, 28-34, í hálfleik.

Sóknarleikurinn liðkaðist umtalsvert í síðari hálfleik hjá báðum liðum. Stjörnumenn náðu að opna vörn ÍR-inga í nokkur skipti sem skilaði sér í sniðskotum, vítum eða opnum þristum. Hjá ÍR var það einkum Kevin Capers sem skilaði stigum fyrir heimamenn en honum héldu engin bönd. Hann var líka brosandi og hress og hann hefur væntanlega lært sína lexíu gegn Njarðvík. Þrátt fyrir frábæran leikhluta Capers leiddu Garðbæingar með 10 stigum, 44-54 eftir flottan Addú-þrist þegar rúmar 3 mínútur lifðu af fjórða og vafalaust fáir tilbúnir að setja pening á að ÍR-ingar myndu leiða fyrir lokaleikhlutann. En það gerðist bara samt, ástríðan lætur ekki að sér hæða og Capers kom sínum mönnum í 57-56 með þremur vítum og allt gersamlega tryllt í Hellinum!

Gestirnir byrjuðu lokaleikhlutann 6-0 en Siggi og Robinson svöruðu. Fissi Kalli missti sig svo aðeins í ástríðunni og fór í snemmbúna sturtu eftir að hafa fengið sína aðra óíþróttamannslegu villu. Hann bað Gettóana um að hlaupa í skarðið fyrir sig sem var augljóslega sjálfsagt. Um miðjan leikhlutann minnkaði Matti muninn í 1 stig, 69-70. Stjörnumenn voru ansi pirraðir og höguðu sér eins og ofdekruð silfurskeiðarbörn og skyldu ekkert í mótlæti heimsins sem þeir þurftu að kynnast hérna í Breiðholtinu. Hálft liðið eyddi orkunni í að væla í Kidda dómara og Arnar í Svala Björgvins sem er auðvitað alveg gangslaust. Þegar fjórar og hálf voru eftir voru heimamenn 71-70 yfir og Arnar tók leikhlé. Borche virðist hafa nýtt það betur því Capers setti aftur 3 víti og svo negldi Robinson þristi í næstu sókn, staðan 77-70! Þarna voru aðeins 3 mínútur eftir og þristarnir vildu ekki detta hjá Stjörnunni, ekki einu sinni Ofurmenninu. Lokatölur urðu 85-76 í algerlega sturluðum leik!

Maður leiksins / menn leiksins

Capers var algerlega geggjaður í síðari hálfleik en hann lauk leik með 32 stig, 8 stoðsendingar og 3 fráköst. En það verður að minnast á alla ÍR-fjölskylduna líka, þvílíkur stuðningur, þvílík stemmning, þvílík ástríða. Einnig má rifja upp að körfubolti snýst að hálfu um að verjast og Daði Kryptonite Berg Grétarsson skilaði góðu verki í kvöld.

Kjarninn

Lið fara ekki til Njarðvíkur tvisvar í röð og vinna fyrir einhverja tilviljun. Það var eldur og ástríða úr augum ÍR-inga í kvöld. Þrátt fyrir það er ljóst að Stjörnuliðið er sterkara á pappírunum enda deildarmeistarar tímabilsins. Mikið er lagt í lið Stjörnunnar og þeim hefur verið legið á hálsi fyrir að leggja hreinlega of mikið í liðið. Gettó-arnir sungu ,,Peningar, ástríða“ í lok leiks og allir skilja hvað þeir meina. Vantar Stjörnuhjarta í Stjörnuliðið?

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Væntanlegt)

Umfjöllun: Kári Viðarsson

Fréttir
- Auglýsing -