spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvenna2-0 eftir naglbít í Garðabæ

2-0 eftir naglbít í Garðabæ

Stjarnan tók í kvöld á móti Keflavík í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Domino’s deildar kvenna. Stjarnan hafði 1-0 forystu í einvíginu eftir góðan sigur í Keflavík og gátu Garðbæingar því komið sér í ansi vænlega stöðu með sigri.

Leikurinn byrjaði heldur hægt og var staðan einungis 2-10, gestunum í vil eftir um sex mínútna leik. Keflavík hafði þriggja stiga forystu, 11-14 eftir fyrsta leikhluta, en í öðrum fjórðungi náðu Stjörnukonur að vinna sig betur inn í leikinn, og höfðu þær fjögurra stiga forskot í hálfleik, 31-27.

Keflvíkingar komu talsvert sterkari til leiks í seinni hálfleik, og höfðu fljótlega náð 9 stiga forystu, 34-43, sem fékk Pétur Má Sigurðsson þjálfara Stjörnunnar til að taka leikhlé. Það gaf góða raun, því út frá leikhlénu skoruðu heimakonur 12 stig í röð og breyttu stöðunni í 46-43, áður en Keflavík lagaði stöðuna fyrir lokafjórðunginn, en gestirnir leiddu með einu stigi fyrir hann, 46-47.

Lokafjórðungurinn var æsispennandi frá upphafi til enda, og skiptust liðin á forystunni alveg þar til í stöðunni 60-60. Þá skoraði Veronika Dzhikova risaþrist fyrir Stjörnuna, og kom þeim þremur stigum yfir, 63-60. Eftir tvö stig frá Söru Rún Hinriksdóttur fékk Keflavík dæmda á sig óíþróttamannslega villu, og fékk Stjarnan því tvö skot og boltann í stöðunni 63-62 og 17 sekúndur eftir af leiknum. Dani Rodriguez, sem alla jafnan er afar örugg vítaskytta, klikkaði hins vegar úr öðru vítinu og Stjarnan fékk dæmdar á sig fimm sekúndur úr innkastinu, sem þýddi það að Keflavík fékk tækifæri til að jafna leikinn. Það tækifæri fór hins vegar forgörðum og fagnaði Stjarnan því naumum sigri, 64-62, og leiða Stjörnukonur einvígið nú með tveimur sigrum gegn engum.

Lykillinn

Heppnin var sannarlega með Stjörnunni í liði undir lok leiks í kvöld, en Keflavík átti boltann þegar 17 sekúndur voru eftir og tveggja stiga munur á liðunum. Keflvíkingar fengu þrjú skot, þar af tvö eftir sóknarfráköst, til að jafna leikinn en ofan í vildi boltinn ekki. Sigurinn féll því í skaut Stjörnunnar en naumara gat það varla verið. Sigur Stjörnunnar var þó dýrkeyptur því Bríet Sif Hinriksdóttir þurfti frá að hverfa vegna höfuðhöggs um miðjan þriðja leikhluta og spilaði því skiljanlega ekki það sem eftir lifði leiks.

Hetjan

Stigahæst í liðíi Stjörnunnar var Dani Rodriguez, en Dani skoraði 22 stig, auk þess sem hún gaf 13 stoðsendingar og tók 8 fráköst. Þá áttu Veronika Dzhikova og Alexandra Eva Sverrisdóttir flottar innkomur af bekknum, en Alexandra spilaði frábæra vörn á Brittany Dinkins og Veronika setti mikilvægar körfur undir lokin. Hjá Keflvíkingum átti Brittany Dinkins erfitt uppdráttar í fyrri hálfleik, en þessi frábæri leikmaður kom tvíefld til leiks í seinni hálfleik og lauk leik með 17 stig og 13 fráköst, og Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 20 stig.

Framhaldið

Næsti leikur liðanna fer fram í Blue Höllinni í Reykjanesbæ miðvikudaginn 10. apríl, en staðan er einföld, Keflavík verður að vinna til að halda áfram þátttöku sinni í Íslandsmótinu, á meðan Stjarnan getur tryggt sér sæti í úrslitaeinvígi deildarinnar í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Fréttir
- Auglýsing -